Fimmtudagur 3. júní 2010

154. tbl. 14. árg.

F yrir fjórum árum leiddi Dagur B. Eggertsson Samfylkinguna í fyrsta sinn í Reykjavík. Tóku menn þá eftir því á lokaspretti kosningabaráttunnar að svo virtist sem Dagur hefði skyndilega stækkað mjög, og virtist meðal annars orðinn talsvert hærri en Stefán Jón Hafstein, sem þó er langur. Ekki þótti síður merkilegt að síðustu dagana fyrir kosningar fór Dagur að birtast borgarbúum með hálsbindi, sem ekki hafði áður gerst á stjórnmálaferli hans.

Hálsbindið var á sínum stað fram að kosningum og raunar í einum umræðuþætti eftir þær, þegar Dagur taldi sig ná að mynda vinstrimeirihluta með hinum flokkunum. Í öðrum þætti lá hins vegar fyrir að svo færi ekki, og þá hvarf bindið.

Nú er Dagur tekinn að mynda nýjan meirihluta. Þá þarf enn nýja ímynd.

Nú mætir hann í gallabuxum á alla fundi.

Hverjum degi hæfir viss klæðnaður. Nú er til dæmis „tími til að skapa“ og vera hress – á gallabuxum.