Laugardagur 29. maí 2010

149. tbl. 14. árg.

Í dag er kosið og þá gæti einhver búist við æsingi og langlokum frá riti sem fjallar meira um stjórnmál en önnur mál. En þarf þess nokkuð?

Enginn flokkur sem býður fram, er fullkominn. Ekki er það síður staðreynd að störfin sem þeir bjóðast til að taka að sér fela í sér ýmsar freistingar. Þess vegna er mikilvægt að fækka þessum störfum og draga úr valdinu sem þeim fylgir.

Þeir sem hafa verið við völd á hverjum stað hafa á síðustu árum allir staðið að of mikilli eyðslu í bland við of mikla skattheimtu og skuldasöfnun. Þær staðreyndir breyta ekki því, að sumir þeirra eru þrátt fyrir allt betri en aðrir. Og svo skiptir persónuleiki og lífsskoðun helstu frambjóðenda máli líka.

Í Reykjavík er málið í raun einfalt. Þar geta kjósendur fyrst og fremst haft áhrif á það hvort Hanna Birna Kristjánsdóttir eða Dagur B. Eggertsson verða borgarstjóri. Ágætur oddviti Besta flokksins nær tæplega fylgi eða samningum til slíks fyrir sína hönd. Reykvíkingar hafa reynslu af þeim báðum í því starfi, Hönnu Birnu og Degi, þótt vissulega sé hún mislöng og ekki sanngjarnt að dæma Dag alfarið eftir henni. En Reykvíkingar hafa getað fylgst með Hönnu Birnu sem borgarstjóra í tæplega tvö ár, og með kjörseðli sínum geta þeir látið í ljós álit sitt á því hvernig til hefur tekist. Vilja þeir að Hanna Birna og félagar hennar haldi áfram á sömu braut og undanfarin tvö ár, eða vilja þeir reyna aftur Dag og félaga hans, nú með Sóleyju Tómasdóttur frá vinstri grænum?

Í öðrum kjördæmum hafa menn einfalda viðmiðun: Kjósa skásta flokkinn. Nema í Kópavogi. Þar gildir kenning Snæfríðar Íslandssólar: Heldur þann versta en þann Næst besta.