Helgarsprokið 30. maí 2010

150. tbl. 14. árg.

Í helgarsproki liðinnar viku sagði frá svonefndum myntráðum sem Eystrasaltsríkin hafa nýtt sér frá því Sovétríkin liðuðust í sundur. Þar var meðal annars sagt frá aðkomu Steve H. Hanke prófessors við Johns Hopkins háskólann að myntráði Eistlands.

Í Eistlandi var krónan var einfaldlega tengd þýska markinu og síðar evrunni. Þannig var haft taumhald á peningamagni því myntráðið lofaði að geta ætíð skipt öllum eistneskum krónum í þýsk mörk og síðar evrur.

Þetta er forvitnilegt fyrir Íslendinga því hér hefur stundum verið reynt að benda á þá leið að taka einhliða upp erlenda mynt eða tengja þá íslensku við aðra mynt með myntráði. Aðdáendur íslensku krónunnar og ekki síður evrunnar hafa jafnan slegið þessar hugmyndir út af borðinu þótt segja mætti að báðir fengju sínu framgengt ef Íslendingar tækju upp myntráð með evru sem grunn. Þá fengju krónumenn að handfjatla íslenska þorskkrónur áfram en evrumenn gætu hugsað með sér að þetta væri í raun evra, bara með mynd af þorski í stað Ollie Rehn. Þetta gæti líka gengið talsvert hraðar fyrir sig en áratuga samningaviðræður, þjóðaratkvæði og aðlögun að einhverju myntbandalagi sem er einmitt í uppnámi um þessar mundir.

Hanke lýsir því til að mynda hvernig stofnun myntráðs í Eistlandi gekk fyrir sig vorið 1992 í grein sem birt er á vef CATO stofnunarinnar nýlega:

Hinn 5. maí 1992 kynnti ég drög okkar að myntráði fyrir Arnold Rüütel síðasta handhafa Sovétvaldins í Eistlandi, Tiit Vähi forsætisráðherra og fleiri forystumönnum í Tallinn. Réttum mánuði síðar var myntráð Eistlands tekið til starfa.

Hanke segir að myntráðið hafi virkað eins og til var ætlast. Þegar erlendur gjaldeyrir flæðir inn í landið stækkar grunnurinn sem krónan hvílir á og öfugt. Eistlendingar hafi gert sér grein fyrir því að að skipti sjálfstæði landsins miklu að gjaldmiðillinn væri traustur og þjóðfélagið opið og frjálst. Ef myntráðinu væri klúðrað sætu þeir sjálfir uppi með reikninginn.

Hanke ber svo ástandið í Eistlandi saman við stöðuna í Grikklandi. Hann bendir á að í alþjóðlegum samanburði sé mjög auðvelt að stunda viðskipti í Eistlandi en ekki Grikklandi.  Grikkland hefur verið með evru um árabil enda fullgildur aðili að myntbandalaginu sem Eistar eru nú fyrst að sækja um að verða. Grikkir fengu að vísu aðild með því að fegra bókhald ríkissjóðs verulega. Hanke hafnar því hins vegar að Grikkir séu í evrugildru og væru í betri stöðu með drökmu. Vandræði þeirra séu vegna eyðslu og skuldasöfnunar. Þeir hafi eytt um efni fram. Þeir komist ekki út úr þeim vandræðum fyrr en þeir einfaldi skattkerfið, lækki launaskatta, og minnki skrifræðið. Það sé rétta leiðin til að bæta samkeppnisstöðu landsins, ekki gengisfelling eins og upptaka drökmu væri í raun.

Því miður, segir Hanke, muni björgunaraðgerðir Evrópusambandsins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins ekki taka á markaðsfjandsamlegu kerfi Grikkja. Þeir muni því áfram verða dragbítur á allt evrusvæðið.