Föstudagur 28. maí 2010

148. tbl. 14. árg.

E ins og við var að búast er mikið fylgi Besta flokks Jóns Gnarrs, Einars Arnar Benediktssonar og félaga mál málanna í opinberri umræðu. Hún snýst núna um þrennt:

1. Menn segja hver við annan: Þetta bara getur ekki farið svona!
2. Menn reyna að finna vitræna skýringu á fylgi þeirra félaga.
3. Menn velta fyrir sér afleiðingunum ef skoðanakannanir verða að raunveruleika eftir kjördag.

Þessar vangaveltur virðast þó allar komnar til af því, að þeir sem svona hugsa og tala, hafa gleymt í hvaða landi þeir eiga heima. Þeir eiga heima í því ágæta landi þar sem þessi maður er lýðræðislega kjörið sameiningartákn þjóðarinnar.

Þegar þessi skemmtilega staðreynd hefur rifjast upp fyrir mönnum, þá sjá þeir að atriðin þrjú eru öll óþörf umræðuefni:

1. Í íslenskum kosningum getur allt gerst og þarf ekki bankaþrot til.
2. Á því þarf ekki að vera nein vitræn skýring.
3. Hvað er langt síðan nokkur hefur hitt nokkurn sem kveðst hafa kosið Ólaf Ragnar?