Mánudagur 24. maí 2010

144. tbl. 14. árg.

U m fimmtán þúsund manns munu nú vera á opinberri atvinnuleysisskrá og þykir mikið. Stjórnmálamenn og aðrir þjóðmálaspekingar segjast vilja fækka á þessari skrá og skyldi engan undra. Vandamálið er, að núverandi stjórnvöld í landinu eru ekki þau heppilegustu til þess.

Núverandi stjórnvöld skilja það enn síður en mörg önnur að það er með öflugu atvinnulífi sem fleiri finna störf. Það þarf að skapa raunveruleg verðmæti svo hægt sé að greiða fólki raunveruleg laun til langs tíma. Núverandi stjórnvöld hafa mikla trú á hinu opinbera en litla á atvinnulífinu. Þess vegna birtist stefna stjórnvalda annars vegar í opinberum átaksverkefnum og hins vegar í hækkuðum sköttum á einstaklinga og fyrirtæki.

Hreyknir ráðherrar hafa kynnt átaksverkefni sem eiga að koma nokkur hundruð manns á launaskrá hér og þar. Dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu fyrir þennan, skjalaflokkun fyrir hinn, nokkrir fá vinnu við að raða í möppur sem enn aðrir fá svo vinnu við að færa milli skápa.

Á sama tíma var lagt fram frumvarp sem hefði hindrað hvalveiðar sumarsins sem tugir manna höfðu fengið vinnu við.

Og ríkisstjórnin heldur áfram að hækka skatta. Hver króna sem greidd er í skatta fer frá launamanni til hins opinbera, eða frá atvinnufyrirtæki til hins opinbera. Fyrirtækið hefur færri krónur eftir til að borga laun eða framkvæma, launþeginn getur leyft sér færra, hann kaupir sér sjaldnar föt, fer sjaldnar út að borða og frestar viðgerðinni á bílnum. Einhver annar verður þá af viðskiptum og svo áfram.

Ríkið og sveitarfélagið tekur hins vegar peninginn og gerir við hann það sem þeim sýnist. Sumt „skapar“ auðvitað störf til skamms tíma. Meira að segja tónlistarhúsið skapar störf á meðan það er í byggingu, en eftir bankahrun sáu menn sér fært að flytja inn hundruð Kínverja til að setja upp dýrasta gler í heimi í húsið. Og auðvitað fá íslenskir iðnaðarmenn vinnu við bygginguna líka, vel veit Vefþjóðviljinn það. En meginatriðið er það, að fé er tekið af fyrirtækjum og vinnandi fólki og ekki varið til hefðbundinnar verðmætasköpunar heldur sett í það sem stjórnmálamenn vilja að verði gert. Nú æpir eflaust einhver að margt af því sem ríkið geri sé „hin raunverulegu verðmæti“. Menn geta haft sína skoðun á því. Það eru hins vegar ekki þau verðmæti sem vinna bug á atvinnuleysi. Án öflugs atvinnulífs verður enginn eftir til að skapa, eða njóta, hinna „raunverulegu verðmæta“ sem einhverjir menn telja sig eina vita hver séu.

Nú og ef að Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson fá að ráða, verða nokkur hundruð milljarðar króna teknir af fólki með valdi og færðir Bretum og Hollendingum að gjöf, án nokkurrar lagaskyldu. Ekki eru formenn stjórnarandstöðuflokkanna óðfúsir að hjálpa Steingrími og Össuri við þessa furðulegu aðgerð?