Þriðjudagur 25. maí 2010

145. tbl. 14. árg.

Þ eir segja að það hafi eiginlega ekkert eftirlit verið með bönkunum áður en þeir hrundu. Það kemur auðvitað nokkuð á óvart því engin atvinnugrein hefur búið við jafn margar reglur og fjármálastarfsemi á undanförnum árum. Það hljómar ekki trúlega að hið opinbera hafi ekki sett upp eftirlit til að fylgjast með því að öllum reglunum væri fylgt.

Lögum samkvæmt þurfa menn að uppfylla ströng skilyrði til að stýra fjármálafyrirtæki og standast próf hjá hinu opinbera.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð samkvæmt hlutafélagalögum og samþykktum hlutafélagsins sjálfs.

Honum til aðstoðar er jafnan fjöldi aðstoðarframkvæmdastjóra, lögfræðinga og endurskoðenda.

Aðalfundur og hluthafafundir fara yfir störf félagsins og kjósa stjórn til að hafa auga með starfsmönnum og taka meiri háttar ákvarðanir.

Aðalfundur kýs jafnframt löggiltan endurskoðanda til að tryggja að allt sé reglum samkvæmt.

Innri endurskoðendur hlutafélagsins og regluverðir félagsins hafa skyldum að gegna lögum samkvæmt.

Stjórn skipar endurskoðunarnefnd til að hafa eftirlit með endurskoðendum.

Félagið er skráð í Kauphöllina og því fylgja ýmsar skyldur og mikil upplýsingagjöf lögum samkvæmt.

Skattstjórar, ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri hafa eftirlit með skattskilum félagsins.

Innlánstryggingar eru að lagaboði.

Seðlabanki gætir að stöðugleika kerfisins og bregst við lausafjárvanda.

Fjármálaeftirlitið hefur svo eftirlit með öllu saman.

Viðskiptaráðuneyti er svo þar til viðbótar.

Reki félagið dótturfélag erlendis fær það svipað eftirlit yfir sig þar.

Væri ekki nær að hafa áhyggjur af því að með öllu þessu eftirliti sé ábyrgð dreift þannig að enginn beri í raun ábyrgð? Framkvæmdastjóri, stjórn, hluthafafundir, endurskoðendur, endurskoðunarnefndir, innri endurskoðun, regluvörður, Kauphöllin, fjármálaeftirlit, skattyfirvöld og fleiri deila með sér alls kyns ábyrgð. Hver vísar á annan.

Svo eru menn afskaplega undrandi á því að enginn hafi gengist við ábyrgð og beðist afsökunar. Eftirlitið var svo margþætt að enginn taldi sig í raun bera ábyrgð.

Og viðskiptavinir fjármálastofnana koma svo að lokum að heimta að ríkið beri allt tjónið því það hafi ekki „sinnt eftirlitsskyldu sinni.“