Helgarsprokið 23. maí 2010

143. tbl. 14. árg.

Þ annig vill til að flestir fylgjendur aðildar Íslands að ESB telja evruna réttu myntina fyrir Íslendinga. Andstæðingar aðildar finna evrunni flest til foráttu. Í þessu fari hafa gjaldmiðilsmál Íslendinga verið föst um árabil.

Meðal þess sem andstæðingar evrunnar benda nú á er að ef Grikkir notuðu enn drökmu gæti gengi hennar einfaldlega lagað sig að veruleikanum, fallið hressilega og þannig bætt einhvers konar samkeppnisstöðu landsins. Þetta hljómar auðvitað kunnuglega í eyrum Íslendinga sem hafa fengið að heyra það úr ýmsum áttum undanfarið hvílík blessun það sé nú fyrir „útflutningsgreinarnar“ að hafa krónuna sem þær greinar myndu þó ekki gefa fyrir tekjur sínar í annarri mynt nema með lagaboði, skilaskyldu á erlendum gjaldeyri.

The Wall Street Journal fjallar nokkuð um stöðu Grikklands og evrunnar í leiðara á föstudaginn. Þar segir að evran sé ekki vandi Grikkja heldur eyðslustefna stjórnmálastéttarinnar. Blaðið segir að Grikkir geti lært ýmislegt af Eystrasaltslöndunum, ekki síst Eistlandi.

Í miðri evrukrísunni í síðustu viku samþykkti ráðherraráð ESB umsókn Eista um aðild að myntbandalaginu. Skuldir Eista sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eru 7,2% en það er lægra en árlegur fjárlagahalli Írlands, Spánar, Frakklands, Portúgals, að ekki sé minnst á Grikkland. Staða Eistlands er þannig að með umsókn landsins fylgdi hvatning til ráðherraráðsins að láta aðildarlöndin ekki komast upp með lausatök í ríkisfjármálum.

Ein ástæða velgengni Eistlands er stöðugleiki í peningamálum. Innan árs frá því landið sleit sig frá Sovétríkjunum árið 1991, setti landið upp myntráð með tengingu við þýska markið. Steve Hanke hagfræðingur við John Hopkins háskóla var maðurinn á bak við það. Þessari tengingu við sterkari gjaldmiðil hélt landið þegar markið varð að evru og svo sem á hverju sem gekk í veröldinni.

The Wall Street Journal getur þess einnig að Litháen hafi tekið upp svipað kerfi með tengingu við Bandaríkjadal í fyrstu en svo við evruna frá 2002. Lettland batt sína mynt einnig við dalinn, þótt ekki væri um myntráð að ræða, en skipti yfir í SDR myntkörfuna.

Undir myntráði heldur seðlabanki gjaldeyrisforða sem jafngildir heimamynt í umferð. Hann getur því ekki aukið peningamagn í umferð því hann heitir því að skipta heimamyntinni hvenær sem er í myntina sem hún er tengd við.

Útkoman er mynt sem er jafnstöðug og myntin sem hún er tengd. Þetta kemur í veg fyrir að seðlabanki reyni að stýra hagsveiflunni með aðgerðum í peningamálum og hindrar stjórnvöld í því að setja prentvélarnar í gang í þeim tilgangi að gera skuldir að engu. Þetta er sérlega mikilvægt fyrir „nýmarkaðslönd“ sem þurfa á erlendri fjárfestingu að halda og mega ekki við ótta fjárfesta við pólitíska óstjórn í peningamálum

Blaðið segir að jafnvel þegar Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi í miðri fjármálakreppunni lagt að Eystrasaltsríkjunum að fella gengi gjaldmiðla sinna hafi þau setið við sinn keip. Í stað þess að eyðileggja gjaldmiðla sína hafi þau einfaldlega sparað í ríkisrekstrinum. Lettland hafi dregið sinn ríkisrekstur saman um 20%. Eistar skáru niður um 15% og eru með fjárlagahalla sem er aðeins 1,7% af þjóðarframleiðslu.

Er þetta ekki eitthvað sem fleiri en Grikkir gætu lært af? Á meðan allir bíða í ofvæni eftir því hér á landi að einhver ríkisstofnunin finni eitthvað sem fór aflaga í gömlu bönkunum – niðurstaða sem markaðurinn skilaði fyrir tveimur árum – veitir því enginn athygli að ríkisstjórnin er að skuldsetja framtíð Íslendinga í þeim tilgangi að halda óbreyttum ríkisrekstri frá árinu 2008, árinu þegar kratastjórnin missti allt taumhald á útgjöldum ríkisins. Fjárlagahalli upp á 100 til 150 milljarða króna ár eftir ár er aðför að framtíð landsins. Svo geggjað er ástandið að jafnvel er haldið áfram að byggja tónlistarhöllina í höfninni.

Annað sem mætti vekja menn til umhugsunar hér að hvernig Eystarsaltslöndin komu skikki á peningamál sín með tengingu heimamyntarinnar við aðra öflugri. Þau gátu þetta eftir hrun Sovétríkjanna. Gætu Íslendingar þetta eftir hrun bankanna?

Það er hins vegar kaldhæðni örlaganna að um leið og Eistar voru að skila inn skínandi umsókn um aðild að evrunni var grafið undan framtíð hennar sem aldrei fyrr. Um þetta segir The Wall Street Journal

Í síðustu viku samþykkti Evrópski Seðlabankinn að kaupa skuldabréf á evrusvæðinu, bæði ríkisskuldabréf og skuldabréf fyrirtækja, til að róa markað með ríkisskuldabréf. Þetta hafði tilætluð áhrif í nokkra dag en vegur stórlega að sjálfstæði bankans án þess að leysa hinn raunverulega vanda í ríkisfjármálum einstakra aðildarríkja.

ESB setti á legg 750 milljarða evra björgunarsjóð sem gefur undan þeirri meginstoð evrunnar að hvert ríki sé ábyrgt fyrir eigin ríkisfjármálum. Fjármálaráðherra Eistlands lét þess getið um helgina að Eistar væru í raun að ganga til liðs við myntsamstarf sem væri orðið mun óstöðugra en Eistland sjálft hefði verið um tveggja áratuga skeið.

Þegar allt kemur til alls er engin mynt þeirrar gerðar að hún geti til eilífðar falið að menn eyði meiru en þeir afla.