Laugardagur 22. maí 2010

142. tbl. 14. árg.

Í gær sagði DV frá því að Stefáni Pálssyni formanni farsællar kjörnefndar VG í forvali vegna borgarstjórnarkosninga hefði „brugðið heldur betur í brún“ við að fá valgreiðslu frá Besta flokknum í netbankann sinn. Stefán upplýsir í örvæntingu á vef sínum að honum hafi bara alls ekki brugðið heldur orðið forvitinn um hvernig menn bera sig að við að stofna valgreiðslukröfur. Stefán vill eðlilega ekki lenda í hópi með Degi B. Eggertssyni sem farinn er í fýlu vegna Besta flokksins. Fýla þykir almennt ekki góð strategía gegn grínframboði. Stefán þarf þó ekki að kvarta mikið yfir DV ef hann hefur séð forsíðu blaðsins í vikunni þar sem gaf að líta stóra mynd af Björgvini G. Sigurðssyni alþingismanni og tilvitnunina „Ég ligg í blóði mínu“. Á vef blaðsins var bætt um betur með fyrirsögninni „Björgin G. Sigurðsson: „Ég ligg í blóði mínu.““ En blaðið hafði þetta bara alls ekki eftir Björgvini heldur einhverjum ónafngreindum manni. Á mælikvarða DV ekki mikið að forvitni breytist í geðshræringu.

En þessi fjáröflun Besta flokksins með valgreiðslum leiðir hugann að því hvernig aðrir flokkar fjármagna sína kosningabaráttu. Til dæmis VG. Á þessu kjörtímabili mun VG þiggja nokkur hundruð milljónir króna frá almenningi. Og það eru sko engar valgreiðslur. Það kemur ekki einu sinni almennilega fram í fjárlögum hvaða flokkar eru að þiggja þær 400 milljónir sem skattgreiðendur eru píndir til að senda stjórnmálaflokkunum á hverju ári. Hvað þá á álagningarseðlinum frá skattinum. Á honum kemur aðeins fram að framkvæmdasjóður aldraðra fær sitt og að fréttastofa VG fær um 17 þúsund krónur frá hverjum skattgreiðenda, velkomminn að Speglinum. Stjórnmálaflokkunum þykir hins vegar ekki nóg að gert með því að þeir þiggi stórfé úr ríkissjóði heldur eru baukar sveitarfélaganna einnig hristir þar til úr þeim skoppa tugir milljóna.

Hér áður lét VG meðal annars sauma nærklæði með mynd af formanni sínum í gervi Che fyrir peninginn frá skattgreiðendum. Nú dreifa frambjóðendur flokksins hins vegar sérsaumuðum innkaupapokum merktum flokknum til almennings – sem borgaði ekki fyrir saumaskapinn með hinum forvitnilegu valgreiðslum heldur hinum sjálfsögðu sköttum.

Um leið og flokkarnir snarhækkuðu ríkisstyrkinn til sín – svo þeir væru ekki háðir frjálsum framlögum – svo gott sem bönnuðu þeir sjálfum sér og öðrum að þiggja frjáls framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum. Hvort það getur staðist að ráðandi flokkar skammti sjálfum sér stórfé úr sameiginlegum sjóðum og banni öðrum um leið að afla fjár til stjórnmálabaráttu að mestu leyti hlýtur að vera álitamál sem einhver lætur reyna á fyrir dómi.