Föstudagur 21. maí 2010

141. tbl. 14. árg.

Á

Hér er haldið áfram. Geðdeildinni verður lokað.

hverjum degi vonast hópurinn, sem vill láta skattgreiðendur byggja fyrir sig tónlistarhöll, til þess að vera ekki stöðvaður. Hver dagur er þar sem happdrættisvinningur fyrir þetta lið. Reynt er að byggja sem hraðast, og umfram allt bjóða sem mest út, í þeirri von að einhvern tímann renni upp sá dagur að menn telji of seint að stöðva herlegheitin.

Nú er gert ráð fyrir að tæplega þrjátíu þúsund milljónir króna fari til byggingar hallarinnar. Þegar bankarnir hrundu var að minnsta kosti helmingurinn eftir. Enn er auðveldlega hægt að stöðva ruglið og spara mörg þúsund milljónir króna. Eða bíða að minnsta kosti þangað til betur árar. Auðvitað á að stöðva ruglið strax.

En áfram hamast menn og skeyta ekkert um þótt hvorki séu heimildir á fjárlögum eða fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir kostnaðinum. Saga hússins er saga yfirgangs og frekju. Það er dæmigert fyrir loftleysið í borgarstjórn Reykjavíkur að af fimmtán borgarfulltrúum er Kjartan Magnússon einn um að hafa barist gegn byggingunni. Það er meðal annars af slíkum ástæðum sem ótrúlegur fjöldi fólks sér enga sérstaka hættu í því að kjósa Besta flokk Jóns Gnarrs og félaga.

Nú í sumar ætlar Landspítalinn að loka geðdeild sinni í þrjár vikur. Spítalanum er gert að spara og stjórnendur hans gera sitt besta til að starfa innan ramma fjárlaga, svo sem þeim ber. Virðist sem nú sé raunverulega reynt að spara á spítalanum, ólíkt því sem oft var áður, þegar svo virtist sem reynt væri að setja helst fram sparnaðartillögur sem enginn myndi samþykkja. Og meðal þess sem Landspítalinn telur sig þurfa að gera nú í sumar er að loka geðdeildinni. Þar munu sparast þrjár milljónir króna.

Ekki gagnrýnir Vefþjóðviljinn stjórnendur opinberra stofnana fyrir að gera sitt besta til að vera innan fjárlaga og fara vel með fé. En á þeim tíma sem haldið er áfram með tónlistarhöllina, án nokkurra heimilda án þess að nokkur fjölmiðill geri úttekt á því, þá er varla sérstök ástæða til að loka geðdeildum, frekar þvert á móti.