F rá því var sagt í fréttum að nemendur grunnskólans í Hrísey hefðu skrifað alþingismönnum og hvatt þá til að banna reykingar í landinu. Var þetta sagt gert í tengslum við verkefni sem börnunum hefði verið sagt að vinna á vegum Lýðheilsustöðvar ríkisins.
Nú þarf svo sem ekki að efast um að börnin séu mjög á móti reykingum. Börn eru það oft. Á þeim dynur áróðurinn um skaðsemi reykinga, jafnvel oftar en þeim er sagt að hjóla með hjálm og að stelpur eigi líka að spila fótbolta. Áróðurinn tryggir svo að á unglingsárunum verða reykingar öruggasta uppreisnarmerkið sem hægt er að sýna.
Og það þarf ekki að koma á óvart þó börnin leggi til að reykingar, sem þau eru á móti, verði einfaldlega bannaðar. Þetta eru skilaboðin sem fólk fær nú flesta daga. Bönnum þetta, bönnum hitt. Sumir trúa því ekki að nokkur dansi nektardans sjálfviljugur. Þess vegna má banna hann. Sumir vilja ekki finna tóbaksþef af fötunum sínum eftir að þeir hafa verið á kránni. Bönnum reykingar þar. Sumir unglingar fara of oft í ljós. Bönnum allar sólbekkjaferðir unglinga og helst allra fullorðinna líka nema þeir séu með sóríasis eða séu félagsmálaráðherra.
Vefþjóðviljinn er lítið fyrir boð og bönn, eins og lesendur hans vita. Fólk á að ráða sem mestu um eigið líf. Sumir kjósa að gera eitt og annað sem mjög líklega er óhollt heilsu þeirra, eins og að reykja mikið tóbak, drekka áfengi stíft, borða of mikið kólesteról eða lesa athugasemdir við blogg Skafta Harðarsonar. En það er hluti af því að lifa lífinu að geta sjálfur tekið ákvarðanir um eigið líf. Að geta ráðið því sjálfur hvað skiptir mann máli og hvað ekki. Það, að geta tekið lífsstíl í dag fram yfir hugsanlega heilsu á elliárum – eða jafnvel alveg fram yfir öll hugsanleg elliár – er hluti af því að bera ábyrgð á eigin lífi. Og svo það sé enn tuggið ofan í meinlokumenn: sá sem fer inn á veitingastað, þar sem húsráðandi leyfir reykingar, hefur þar með sjálfur samþykkt að fá yfir sig reyk, og enginn réttur er á honum brotinn.
Önnur alvarleg afleiðing af bannáráttu stjórnlyndra, er að fólk venst því að taka ekki ábyrgð á eigin málum. Það fer að álykta sem svo, að það, sem ekki sé bannað, sé þá í lagi. Ríkið hljóti að hafa skoðað málið og ekki talið þörf á banni. Einhvers staðar hljóti að vera „eftirlitsstofnun“ sem beri ábyrgð á því að allt sé í lagi. Þeir sem starfa svo á markaði, þar sem er eftirlitsstofnun, þeir venjast líka á, að það, sem eftirlitsstofnunin tekur ekki á, hvort sem er vegna vanmáttar, vanþekkingar eða yfirþyrmandi stjórnsýslureglna, sé þar með í lagi. Og fólk sem veit af eftirlitsstofnuninni, varpar allri eigin ábyrgð á hana, og kennir svo ríkinu um ef að illa fer og það er prettað.
Það á að afnema sem flest lífsstílsbönn og bönn við háttsemi sem ekki brýtur nokkurs manns rétt. Og það á að leiðrétta þann misskilning að ábyrgð á hegðun fólks sé ekki hjá því sjálfu heldur ríkinu.
Og lýðheilsustöð á að láta börn í friði.