Þriðjudagur 4. maí 2010

124. tbl. 14. árg.
Vonandi tekst okkur að landa samkomulagi sem verður helst betra, að minnsta kosti örugglega ekki verra en það sem var í sjónmáli fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Það væri sorglegt ef við hefðum þar glatað af besta tækifærinu sem kannski yfirhöfuð kom upp í stöðunni til að landa málinu. Vonandi ekki, við skulum sjá hvað setur.
– Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í viðtali við mbl.is 4. maí 2010.

V antaði eitthvað upp á að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave-samning vinstri stjórnarinnar væru skýrar? Nei, reyndar ekki. Það voru bara tveir kostir í boði. JÁ eða NEI. Yfir 98% kjósenda völdu NEI og greiddu atkvæði gegn samningnum. Mikill meirihluti atkvæðisbærra manna mætti á kjörstað. Ekki aðeins meirihluti kjósenda heldur einnig kosningabærra manna hafnaði ánauðinni.

Nú tveimur mánuðum síðar leyfir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sér að gefa það í skyn að hann muni skrifa undir annan samninginn sem verði kannski ekki betri heldur bara eins eða jafnvel lakari en samningurinn sem var felldur 98-2 í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Á hvað minnir þessi málflutningur? Það eina sem Vefþjóðviljinn man eftir í svipinn er það hvernig þjóðaratkvæðagreiðslur um Evrópusambandið eru endurteknar í sífellu þar til almenningur lætur segjast. Þangað hefur Steingrímur líka sent inn umsókn um aðild.