Laugardagur 1. maí 2010

121. tbl. 14. árg.

H vernig tengist stjórnarskrá lýðveldisins bankahruninu eiginlega? Það væri gagnlegt að heyra af því hvaða grein hennar átti þátt í því að rekstur íslensku bankanna gekk ekki upp. Ýmsir spekingar hallast nú að því að bankahrunið hafi verið vegna ónýtrar stjórnarskrár. Hafði þessi grein íslensku stjórnarskrárinnar einnig áhrif á fall Lehman bræðra eða skrifast það á reikning sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna? Nánari upplýsingar um þetta væri gott að fá áður en 700 milljóna-ráðgefandi-stjórnlagaþingið hefst handa við að plægja stjórnarskránna.

En hlýtur ekki að koma til álita á 700 milljóna-ráðgefandi-stjórnlagaþinginu að semja einfaldlega ákvæði í stjórnarskránna sem kemur í veg fyrir svona leiðinda mínusa í bókum fjármálafyrirtækja?

Íslenskir bankar mega ekki tapa á viðskiptum sínum. Til vara ber Bayerische Landesbank ætíð að endurfjármagna skuldir íslenskra fjármálastofnana.

Þetta ákvæði verður þó að öllum líkindum óþarft því væntanlega verður búið að stofna „nýtt lýðveldi“ innan tíðar. Þá verður sjálfkrafa allur annar bragur á rekstri banka hér á landi. Hvílíkur munur.

R ætt er við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur alþingismann í Fréttablaðinu í dag um stöðu hennar vegna styrkja sem hún þáði í prófkjörum Samfylkingarinnar árið 2006. Steinunn veitti kjósendum engar upplýsingar um styrkina á sínum tíma. Reykvíkingar kusu hana bæði í borgarstjórn og á Alþingi án þess að hafa hugmynd um þessi framlög fyrirtækja í prófkjörssjóði hennar. Það var ekki fyrr en á síðasta ári sem hún og margir aðrir þingmenn upplýstu um þessi framlög.

Steinunn Valdís segir að hún hafi „líklega ein frambjóða birt öll útgjöld.“ Þetta er reyndar ekki rétt hjá Steinunni því nokkrir frambjóðendur, þeirra á meðal Mörður Árnason flokksbróðir hennar, birtu upplýsingar um bæði tekjur og gjöld í prófkjöri árið 2006. Og það gerðu þeir þegar árið 2006 en ekki nokkrum árum síðar eins og Steinunn Valdís og félagar hennar á Alþingi.

En þetta er ágæt ábending hjá Steinunni Valdísi og alveg sæmilegt skot á aðra þingmenn Samfylkingarinnar. Hvorki þingmenn Samfylkingar né annarra flokka hafa almennt gert grein fyrir útgjöldum sínum í prófkjöri 2006. Ekki að þeim beri nokkur skylda til þess eða Vefþjóðviljinn sé að heimta það af þeim. Það er bara hins vegar þannig að undanfarið hafa þeir hrópað nær allir sem einn að „allt þurfi að vera uppi á borðum.“ Vilja þeir þá ekki bara hafa það þannig?

Og hvenær ætla þingmennirnir sem vilja hafa allt upp á borðum að birta yfirlit yfir skuldir sínar? Nú hefur til að mynda verið lagt fram frumvarp um að þau fjármögnunarfyrirtæki sem veittu fólki lán til bílakaupa greiði fólkinu stórfé, jafnvel milljónir króna. Þeir sem fussa og sveia yfir því að þingmenn hafi fengið hálfa milljón í frjálst framlag frá fjármálafyrirtæki verða varla hrifnir af því að þingmenn greiði atkvæði með því að fjármálafyrirtæki verði neydd til að færa þeim eða einhverjum í fjölskyldu þeirra stórfelldan afslátt af bílalánum.

Annars má það teljast afrek hjá Fréttablaðinu að álpast ekki til að spyrja Steinunni Valdísi hvers vegna hún hafi ekki farið að margvíslegum yfirlýsingum samfylkingarmanna um að það væri grunsamlegt að þiggja stóra styrki frá fyrirtækjum og að allt bókhald stjórnmálasamtaka ætti að vera opið. Hvers vegna var svona erfitt fyrir Steinunni og fleiri samfylkingarmenn að láta orð og gjörðir fara saman? Mörður Árnason gat það.