Föstudagur 16. apríl 2010

106. tbl. 14. árg.
Lagaheimildir eru þegar fyrir hendi varðandi Fjármálaeftirlitið og bankana en það þarf að þarfagreina hvaða upplýsinga er þörf til viðbótar, þannig að Seðlabankinn öðlist heildaryfirsýn og geti stuðlað að fjármálastöðugleika.
– Páll Hreinsson, Morgunblaðinu, 14. apríl 2010.
 
Það er hins vegar okkar afstaða að lög hefðu átt að standa til þess að bankinn fengi meiri upplýsingar en varð.
– Tryggvi Gunnarsson, Morgunblaðinu, 14. apríl 2010.
 
Í gamla daga var bindiskyldan nýtt en hún dugar ekki við þær aðstæður sem sköpuðust í aðdraganda hrunsins eins og bent hefur verið á. Eitt úrræðið er að gefa Seðlabankanum vald til að stýra veðhlutföllum en í þeim felast augljós bólumerki.
– Sigríður Benediktsdóttir, Morgunblaðinu, 14. apríl 2010.
 
Það hefði skipt miklu máli ef Seðlabankinn hefði átt kost á þessu á árunum 2000-2005.
– Páll Hreinsson, Morgunblaðinu, 14. apríl 2010.
 
Við fengum verulegt magn gagna frá Seðlabankanum þar sem hugað hefur verið þó nokkuð vel að skráningu funda og samtala. Það sést til dæmis á lýsingum á samráðsfundum, drögum að fundargerðum og punktum. Þetta eru stundum einu samtímaheimildirnar sem við höfum.
– Tryggvi Gunnarsson, Morgunblaðinu, 14. apríl 2010.
 
Ef farið hefði verið út í þá greiningu, hvað kostað hefði að halda úti trúverðugum gjaldeyrisforða hefðu menn komist að þeirri niðurstöðu að það væri of dýrt – og bankakerfið þar af leiðandi of stórt.
– Sigríður Benediktsdóttir, Morgunblaðinu, 14. apríl 2010.

H efur einhver heyrt fréttamenn eða álitsgjafa vitna til einhverra þessara orða rannsóknarnefndarmannanna þriggja, sem féllu í viðtali við þau í fyrradag? Nóg hafði nú verið talað um bindisskyldu og að með öðruvísi notkun hennar hefði mátt breyta miklu. Sigríður blæs á það. Seðlabankinn hefur ekki þær lagaheimildir sem hann þyrfti, ef hann ætti að geta stuðlað að fjármálastöðugleika, segir Páll. En við vildum að bankinn hefði haft meiri heimildir, segir Tryggvi. Það hefði skipt máli ef Seðlabankinn hefði haft vald til að stýra veðhlutföllum, segja Sigríður og Páll, en hann hafði það vald ekki. Rannsóknarnefndin fékk veruleg gögn frá Seðlabankanum og þar hefur verið hugað þó nokkuð vel að skráningu, gögn Seðlabankans voru stundum einu samtímaheimildirnar sem við höfðum, segir Tryggvi. Sumir hafa kvartað yfir því að gjaldeyrisforðinn hafi ekki verið efldur til samræmis við vöxt bankanna. Sigríður segir að það hefði verið of dýrt.

Allt eru þetta merkilegar staðhæfingar nefndarmanna, og ekkert af þessu munu fréttamenn Ríkisútvarpsins eða álitsgjafar nokkurn tíma segja fólki. Á þeim bæ er skýrslan „áfellisdómur yfir stjórnsýslunni“ og ekkert má heyrast sem dregið gæti úr þeirri mynd.

Fréttir af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hafa verið mjög sérstakar og ekki hefur farið milli mála að skoðanir og jafnvel fordómar einstakra fréttamanna ráða mjög miklu um hvað valið er í fréttir og hvaða ályktanir eru af því dregnar. Sumt er svo aldrei nefnt og í því sambandi er með ólíkindum að hugsa til þess að aldrei er í fréttum sagt frá efni þeirra andmæla sem einstakir stjórnmálamenn eða embættismenn lögðu fram og er hluti af skýrslu nefndarinnar, eins og nefndin hefur tekið fram.

Í fyrradag voru nefndarmenn í viðtali við Morgunblaðið, eins og hér hefur verið sagt frá, og enn hafa engir fréttamenn eða álitsgjafar sagt frá neinu af því sem þar kom fram. Er sú þögn í áberandi litlu samræmi við sérvalinn áhuga fjölmiðla á ýmsum öðrum málum er tengjast nefndarstarfinu.

Fréttamenn og álitsgjafar hafa endurtekið hvað eftir annað að skýrslan sé mikill áfellisdómur yfir „stjórnsýslunni“ og virðast setja hana alla undir einn hatt. Nefndarmenn hafa sjálfir mest gert úr því að stjórnsýslan sé of óformleg, skráningu upplýsinga sé víða mjög ábótavant, fundargerðir séu ekki haldnar og ekkert skráð niður um samtöl. Þetta er helsti almenni áfellisdómurinn yfir stjórnsýslunni. Og er þá rétt að gefa nefndarmönnum sjálfum orðið en treysta ekki um of á álitsgjafana með sína fyrirfram-afstöðu:

Páll Hreinsson viðurkennir að íslensk stjórnsýsla sé „óformlegri en stjórnsýsla nágrannalanda okkar“ en í aðdraganda bankahrunsins hafi það keyrt úr hófi. „Það er ekki vandamál fyrir okkur að átta okkur á hvað menn sögðu. Upplýsingar sem komu frá Seðlabankanum voru mjög alvarlegar og menn brugðust ekki við. En til þess að taka málið föstum tökum og með faglegum hætti þarf að skjalfesta það, hvert var mat Seðlabankans og hvaða leiðir voru færar.“

Tryggvi Gunnarsson tekur þá við og segir:

Komið er í ljós að það skortir verulega á samræmd vinnubrögð varðandi skráningu þessara hluta. Við fengum verulegt magn gagna frá Seðlabankanum þar sem hugað hefur verið þó nokkuð vel að skráningu funda og samtala. Það sést til dæmis á lýsingum á samráðsfundum, drögum að fundargerðum og punktum. Þetta eru stundum einu samtímaheimildirnar sem við höfum. Þetta eru ekki yfirlesnar fundargerðir sem hafa verið staðfestar, en þarna var möguleiki að skrá niður og setja fram skjöl, sem höfðu að geyma ábendingar, tillögur og mat á stöðu. Þannig að þetta var hægt.

Og í þessi orð verður hvergi vitnað. Fréttamenn og álitsgjafar, sem munu vikum og mánuðum saman halda áfram að endurtaka að nefndin gagnrýni harðlega óformlegheit og ófaglegheit stjórnsýslunnar, munu aldrei segja neitt sem gæti gefið áhorfendum þá hugmynd að eitthvað geti verið málum blandið við þá mynd sem svo vandlega er nú dregin upp.