E inhver hefur kannski haldið að blaðamenn hefðu loks lært að taka greiningar, álit og skýrslur manna með hæfilegum fyrirvara. Þeir hefðu ef til vill fengið nóg af því á undanförnum árum að láta mata sig.
Í gær sagði Fréttablaðið það í fyrirsögn fréttadálks að Björgvin G. Sigurðsson hefði sýnt vanrækslu í starfi sem viðskiptaráðherra. Það er einmitt það. Segir hver? Jú þessi þrjú sem sátu í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið. Þau hafa vafalaust skoðað málið ágætlega og eyddu jafnvel í það meiri tíma en lög mæltu fyrir um. En þau gætu samt haft rangt fyrir sér. Og hvert er hið rétta svar í málum sem þessum sem eru svo mjög háð huglægum þáttum?
Fréttamenn virðast alveg búnir að gleyma nýlegum heitstrengingum sínum að láta ekki berast með straumnum framar. Nú má sjá þá flesta fljóta hjá með tíu kg pappírskút frá rannsóknarnefndinni. Og lífið er svo þægilegt. Þeir gera hæglega haldið sér á floti með þessu móti næstu vikurnar.
H ér eru því nokkur tíðindi fyrir fjölmiðlamenn. Í morgun baðst Kristín Ástgeirsdóttir, ein nefndarmanna í siðferðiskafla skýrslunnar, afsökunar á ósannindum í þeim kafla um forseta Íslands. Þetta gerði hún í Meinlokum Hallgríms Thorsteinsonar í Ríkisútvarpinu.
Í viðtali við Morgunblaðið í morgun neitaði Vilhjálmur Árnason formaður siðferðishópsins hins vegar að tjá sig um þessi ósannindi sem hann bar á borð fyrir landsmenn á kostnað þeirra. Vilhjálmur hefur farið mikinn í dómum um siðferðisþrek annars fólks að undanförnu. Nú hefur hann ekki þrek til að biðjast afsökunar á þvælunni sem hann setti saman um forseta Íslands undir merkjum siðferðis.
D raga á þá sem tæmdu banka fyrir dóm, sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra beinum orðum í morgun. Förum nú svona sex ár aftur í tímann og ímyndum okkur að þáverandi forsætisráðherra hefði sagt eitthvað neikvætt um þessa menn eða jafnvel bara fátt jákvætt. Það er alveg óhætt að fullyrða að Borgarnes hefði ekki dugað fremur en fyrr sem vettvangur til að segja fólki frá ofsóknum ráðamanna og þjóðfélagi óttans þar sem lögreglu og dómstólum væri beitt gegn andstæðingum valdhafanna. Þó voru þessir menn á þeim tíma taldir efnuðustu menn landsins og ráku vinsælustu fyrirtæki sem veltu meiru en ríkissjóður. Forsætisráðherra hefði því ekki beinlínis verið að ráðast á garðinn þar sem hann var lægstur.
Nú bendir Jóhanna Sigurðardóttir á þessa menn og segir að draga eigi þá fyrir dóm, væntanlega til þess að sakfella þá þar. Í hvaða stöðu eru þessir menn nú til að verjast svona beinum fyrirmælum úr stjórnarráðinu? Fyrirtæki þeirra og þeir sjálfir í einhverjum tilfellum eru gjaldþrota og þeim ekki vært hér á landi. Þeir geta vart látið sjá sig út á götu án þess að almennir borgarar sendi þeim tóninn.
Nú getur Jóhanna.