N ú keppast stjórnmálamenn við að segja almenningi að „þetta megi ekki endurtaka sig“. Þeir muni læra af reynslunni. Þeir lofa að herða reglur og auka eftirlit svo enginn banki verði gjaldþrota framar. Viðskiptaráðherra hefur hins vegar lagt fram frumvarp um að hækka innstæðutryggingar í 50 þúsund evrur svo hann heldur þeim möguleika opnum að þrátt fyrir allt nýja eftirlitið muni bankar geta lent í basli með að greiða fólki út peningana sem það hefur lagt inn.
Það var ekki síst hið nána samband ríkisins og fjármálakerfisins sem leiddi til þess að ríkissjóður Íslands sogaðist niður með bönkunum og situr nú uppi með gríðarleg erlend lán. Í framhaldinu á hins vegar að styrkja þetta samband ríkisins og bankanna með hærri lögbundnum innstæðutryggingum og gríðarlegum loforðum stjórnvalda um svo mikið eftirlit með bönkum að það muni aldrei gerast aftur að slíkar stofnanir leggi upp laupana. Ísland er jafnvel sagt til sveitar hjá AGS svo safna megi „gjaldeyrisforða“ í seðlabankann. Eitthvað verða menn að eiga til að kasta á bálið næst þegar eldur verður laus, þótt það muni að vísu ekki endurtaka sig.
Hér hefur verið hrópað að vegna „eftirlitsskyldu“ beri ríkið ábyrgð á alls kyns ævintýrum bankanna og viðskiptavina þeirra, jafnvel vafasömum kynnum á netinu. Hver verður ábyrgð ríkisins eiginlega þegar til viðbótar við hertar reglur og aukna „eftirlitsskyldu“ eru komin loforð stjórnvalda um að „þetta gerist aldrei aftur“?
Er ekki bara hreinlegra að fá gömlu ríkisbankana aftur?
S jórnmálamenn hafa undanfarna daga margir lýst sig reiðubúna til að „axla ábyrgð“ á einhverju. Það er eins og þeir hafi allir fengið sömu línuna frá lífstílsþerapista. „Minn flokkur mun ekki að hlaupast undan ábyrgð á sínum þætti.“ Samt eru einu tillögur þeirra um úrbætur að auka völd þeirra sjálfra og afskipti af atvinnulífinu með fleiri reglum og auknu eftirliti.
M eint hjarðhegðun og meðvirkni undanfarinnar ára hefur verið gagnrýnd talsvert upp á síðkastið. Það þorði enginn að segja neitt, segja menn. Fjölmiðlarnir sungu með ráðandi öflum í viðskiptum.
Það kann að vera.
Á mánudaginn kom út skýrsla frá rannsóknarnefnd Alþingis, nefnd skipuð af kerfinu sem brást, skipuð fólki úr kerfinu sem brást. Enn hefur enginn fjölmiðill gagnrýnt nokkuð í skýrslunni, hvað þá bent á rangfærslur eða hreinan uppspuna. Fjölmiðlamenn eru fullkomlega lausir við gagnrýna hugsun um þessa skýrslu. Og sem fyrr eru þeir það allir í kór.
Í gær var rætt við Ólaf Ragnar Grímsson forseta um efni skýrslunnar á Rás 2. Ef eitthvað er að marka það viðtal stendur vart steinn yfir steini í skýrslunni hvað forsetann varðar.
Hvað er þá með hlut annarra sem hafa ekki forsetaembætti til að verjast úr?
Á ttræð er í dag Vigdís Finnbogadóttir. Forsetaferill hennar varð betri og betri með hverjum deginum, eftir að honum lauk.