Miðvikudagur 14. apríl 2010

104. tbl. 14. árg.

E itt af því sem sumir hafa haft á heilanum lengi, er „einkavæðing bankanna“. En vel að merkja er þar átt við einkavæðinguna sem fór fram í byrjun aldarinnar. Menn hafa engar áhyggjur af einkavæðingunni sem fór fram síðasta haust, þegar tveir bankar voru afhentir óþekktum aðilum, og enn veit enginn hverjir eiga bankana. Þetta áhugaleysi er mjög sérstakt, ekki síst í ljósi þess að margir telja að eignarhald föllnu bankanna hafi ráðið úrslitum um fall þeirra – og er þá óhætt að muna að fyrstur féll sá banki sem ekki var einkavæddur á þessari öld.

En hvað um það. Eitt af því sem margir hafa uppi stór orð um, er að Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra hafi viljað að Samson-fyrirtækið eignaðist stóran hlut í Landsbankanum.

Í gær sat Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherrann sem seldi bankana fyrir svörum í Kastljósi. Hún var auðvitað spurð um þetta áhugamál álitsgjafanna. Jú, Davíð hefði viljað þetta, hélt hún. En hann hefði að vísu aldrei sagt eitt einasta orð um það. Valgerður var spurð um það sérstaklega hvort forsætisráðherra hefði sagt eitthvað í þessa veruna og svar hennar var: Nei.
Hún hefði hins vegar haft það á tilfinningunni, svona af „andrúmsloftinu“.

Sömu spekingar og telja þetta mikil tíðindi og sanna sitt mál, þeir hafa árum saman lýst þessum Davíð sem hinum ofstækisfyllsta einræðisherra. Síðan að halla fór undan fæti hjá Björgólfsfeðgum hafa álitsgjafar kallað þá „einkavini Davíðs“, án sérstaks rökstuðnings. En núna ætlast þeir til að fólk trúi því að hinn illi einræðisherra, sem öllu hafi viljað ráða, hafi lagt höfuðáherslu á að þessir menn keyptu bankann – þó hann hafi raunar aldrei sagt um það aukatekið orð. Valgerður Sverrisdóttir segist hins vegar hafa metið „andrúmsloftið“ einhvern veginn, og þá þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Einræðisherrann samur við sig.

Á vinsælum vefmiðli var sagt frá þessu í gær. Þar var haft eftir Valgerði að Davíð hefði aldrei sagt neitt um þetta, en hún hefði skynjað það. Og yfir var sett fyrirsögn sem er í stíl við aðra framgöngu íslenskra fjölmiðla þessi misserin: „Davíð heimtaði að Björgólfsfeðgar fengju Landsbankann“.

Þegar Valgerður segir að Davíð hafi aldrei sagt orð í þessa veru, en andrúmsloftið hafi víst verið svona, ætli það geti nú kannski verið að „andrúmsloftið“ sé í raun það sem hún raunverulega haldi nú, eftir að hafa árum saman setið undir fullyrðingum og samsæriskenningum í þessa veru? En hvað sem því líður þá er ljóst að viðskiptaráðherrann byggði engar ákvarðanir sínar á orðum, óskum eða tilmælum forsætisráðherra. En sú augljósa staðreynd mun auðvitað ekki hafa nein áhrif á heimsmynd álitsgjafanna. Þar breytist ekkert.

Þ að er raunar þannig að framkvæmdin á sölu ríkisfyrirtækja, einkavæðing, er undantekningarlítið gagnrýnd mjög harðlega. Það er langt síðan ríkisafskiptasinnar gáfust upp á því að færa efnisleg rök gegn einkavæðingu og sneru sér alfarið að „söluferlinu“. Svo er það jafnan freistandi fyrir stjórnarandstöðu, hver sem hún er, að gagnrýna „söluferlið“, svona til að gagnrýna eitthvað. Vefþjóðviljinn hefur alltaf sagt að því miður er einkavæðing óhjákvæmilega í höndum stjórnmálamanna. Það má því búast við ýmsu. Hann hefur því stundum lagt til að hlutabréf stærri fyrirtækja séu send landsmönnum öllum í pósti. Það ætti að minnsta kosti að koma til móts við þá sem segjast andvígir því að gefa „eigur almennings“.

S vo er það allt talið um að „vandað söluferli“ komi í veg fyrir að mikilvæg fyrirtæki komist í „hendur óvandaðra manna“. Muna menn eftir síðustu sölunni á Landssíma Íslands? Um hana var þvílík sátt og almennt lof og prís. Mjög vandað allt saman og faglegt. Í því rómaða „söluferli“ endaði fyrirtækið í höndunum á þeim er voru aðaleigendur Kaupþings. Þeir sem mest tala um „söluferli“ hafa ekki vandað þeim aðilum kveðjurnar að undanförnu.