Þriðjudagur 13. apríl 2010

103. tbl. 14. árg.

Æ tli síðustu dagar kalli ekki á nokkra Andríkis-punkta?

· Tískuorð dagsins virðast vera „ófrjálst viðskiptalíf“. Menn virðast halda að einhverjum mönnum hafi fyrir nokkrum árum verið „sleppt lausum“ og þeir því átt auðvelt með að keyra allt um koll í græðgi sinni. Þó fjölmiðlar muni að sjálfsögðu ekki rifja það upp, þá voru nú ýmsir, sem nú þykja hinir mestu hagspekingar, sem mjög mæltu með því að eftirlitsstofnanir létu fyrirtæki sem mest í friði. „Íslendingar raða sér ótvírætt í hóp þeirra þjóða sem hafa skilvirkast efnahagslíf og það eitt og sér bendir sterklega til þess að þær stofnanir sem við höfum komið okkur upp flækist ekki um of fyrir efnahagslífinu“, sagði maður nokkur svo ágætlega í ársbyrjun 2005. Hann sat þá í stjórn Kauphallarinnar og næstu fimm árin átti hann eftir að starfa í þessum anda sem stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins. Hann heitir Gylfi Magnússon og þykir gríðarlega faglegur ráðherra. Eftir bankahrun talaði þessi stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins á útifundum og krafðist þess að allir sem hefðu komið nálægt viðskiptalífinu drægju sig í hlé. Næst settist hann sjálfur í ríkisstjórn og vildi þá ekki einu sinni sleppa stjórnarformennskunni heldur fór í „leyfi“ sem stjórnarformaður. Fréttamenn spurðu ekki einu sinni hver hefði veitt honum leyfið, þegar hann gerðist sjálfur ráðherra málaflokksins.

· Í löngum sjónvarpsþætti Ríkissjónvarpsins í gær sagði Tryggvi Gunnarsson að Íslendingar hefðu innleitt evrópskar reglur en hins vegar ekki reynt að laga þær að því umhverfi sem væri hér á landi. Eflaust finnst einhverjum, eftir á að hyggja, að hér hefðu átt að vera aðrar reglur en annars staðar í Evrópu, en fáir töluðu fyrir slíku á þeim árum þegar íslensk fyrirtæki á ótal sviðum reyndu sig í alþjóðlegri samkeppni. En í tilefni af því að Tryggvi Gunnarsson hefur nú vakið máls á því að Alþingi hafi ekki lagað evrópsku reglurnar „að því umhverfi“ sem hér sé, þá má nefna að íslenska stjórnkerfið bjó svo vel að í landinu starfaði allan útrásartímann algerlega sjálfstætt embætti sem hafði meðal annars þá skyldu að láta vita ef meinbugir væru á gildandi lögum. Í 11. gr. laga nr. 85/1987 um umboðsmann Alþingis segir: „Ef umboðsmaður verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum skal hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn.“

· Ekki þarf að efast um að árvökulir fjölmiðlamenn munu spyrja nefndarmenn hvað hafi komið út úr athugun þeirra á því, hvernig umboðsmaður Alþingis hafi sinnt margháttuðu eftirlitshlutverki sínu með allri stjórnsýslunni. Hafi nefndin hins vegar ekki talið þörf á slíkri athugun þá munu fréttamenn að sjálfsögðu afla upplýsinga um á hvaða fundi nefndarinnar það hafi verið ákveðið, hvaða nefndarmenn hafi setið fundinn og fá afrit fundargerðar. Þetta mun íslenskum fréttamönnum hugkvæmast eftir fimmhundruð ár eða svo.

· Þegar ekki er hægt að nota niðurstöður skýrslunnar til að kenna öðrum en bankastjórnendum og eigendum um þrot bankanna, reyna menn annað. Þá er farið í að ógurleg hagstjórnarmistök hafi átt sér stað og er nefnt að skattar hafi verið lækkaðir á þenslutímum. Nú eru ekki þenslutímar, eins og menn vita. Ríkisstjórnin hækkar nær alla skatta sem hún sér og setur sums staðar heimsmet í skattprósentu. Stjórnarherrunum og fræðingum þeirra líkar það vel. En hvenær má þá eiginlega lækka skatta?

· En alltaf hljómar hún jafn dularfull, kenningin um að ekki megi lækka skatta á þenslutíma. Með öðrum orðum: Ef að Jóna Jónsdóttir skattborgari fær að halda eftir aðeins meira af launum sínum, og fer út í búð og kaupir sér geisladisk, þá eykst þensla og allt fer norður og niður. En ef ríkið tekur af henni peninginn, og notar sama pening til að byggja tónlistarhús, þá eykst engin þensla. Peningur eykur þensluna ef borgarinn notar hann, en ekki ef ríkið notar hann.

· Þeir sem voru á móti skattalækkunum, af því að þær ykju svo þensluna, voru þeir ekki líka á móti hækkun persónuafsláttar og bættum launum opinberra starfsmanna?
· En kenningin um að skattar hafi verið lækkaðir og það verið hið versta mál, hvernig rímar hún við samfelldar kenningar Stefáns Ólafssonar um að hér hafi verið mikil skattpíning á vegum Sjálfstæðisflokksins? „Hvernig getur staðið á því að skattbyrði hafi aukist þegar stjórnvöld segjast hafa verið að lækka skatta? Það liggur í því að stjórnvöld hafa lækkað skatta með annarri hendi en hækkað þá með hinni. Hækkunin var mun meiri en lækkunin.“ skrifaði Stefán Ólafsson prófessor í janúar 2006 og þótti mikil speki. Nú kemur hver á eftir öðrum og telur vonda frjálshyggjumenn hafa valdið hræðilegri þenslu með skattalækkunaræði sínu.

· Enginn segir orð, í öllu talinu um hagstjórnina, um að árin fyrir bankahrun greiddi íslenska ríkið niður allar erlendar skuldir sínar. Ætli það hafi nokkuð hjálpað til hvort sem er? Þessir hálfvitar í ríkisstjórninni gerðu allt vitlaust og eru engir fagmenn.

· Alls kyns spekingum fannst fráleitt að í þriggja manna bankastjórn Seðlabankans væru tveir hagfræðingar og einn lögfræðingur. Sömu spekingum finnst ekkert að því að nefnd tveggja lögfræðinga og eins hagfræðings kveði upp mikla dóma um hagstjórn, bankaviðskipti og bankahrun.

· Og talandi um fagmenn. Hefur einhver sýnt fram á annað en að eintómir fagmenn hafi verið valdir til verka hjá til að mynda Fjármálaeftirlitinu og Tryggingasjóði innstæðueigenda? Fjármálakerfið var tæmt undir nefinu á fagmönnunum og tryggingarsjóðurinn er tómur og setið um landið vegna þess.

· Með skýrslu rannsóknarnefndarinnar fylgdi ritverk sérstaks starfshóps um siðferði. Ritverkið mætti sem best heita Óðurinn til yfirlætisins, og er þar farið yfir hversu siðlausir aðrir menn séu. Formaður hópsins tók fram á blaðamannafundi að það sýndi „dramb“ manna úr fámennu landi, að þeir hefðu stefnt að því að hér yrði frjálsasta hagkerfi heims og best að stunda viðskipti. Sami formaður er prófessor við Háskóla Íslands sem hefur markað um það opinbera stefnu að verða einn af bestu háskólum heims.

· Hneykslaður formaður starfshópsins sagði í sjónvarpi að það væri lenska á Íslandi að taka ekki mark á sérfræðingum. „Jæja , þarna sér maður þá af hverju“, hugsaði Vefþjóðviljinn.

· Kristín Ástgeirsdóttir sat í sama starfshópi. Í ríkissjónvarpinu í gær sagði hún að pólitískar mannaráðningar hefðu verið „viðvarandi vandamál“ á Íslandi. Tveir fréttamenn sátu þarna og hlustuðu á Kristínu Ástgeirsdóttur fyrrverandi alþingismann Kvennalistans og núverandi forstjóra Jafnréttisstofu, án þess að segja aukatekið orð. Og kalla sig fréttamenn. Spurðu þennan eindregna baráttumann gegn pólitískum ráðningum ekki einu sinni hvernig það hefði komið til að hún hefði ratað í þennan starfshóp, fyrrverandi alþingismaðurinn.

· Ríkissjónvarpið sýndi í gær langan þátt um rannsóknarskýrsluna og tókst með hefðbundnum Rúv.-aðferðum að láta líta svo út að drjúgur hluti bankahrunsins væri stjórnsýslunni að kenna. Athugasemdum og andmælum sem við skýrsluna bárust og voru að sögn um 500 blaðsíður að lengd var ekki sinnt í þessum þætti. Má ekki ganga út frá því sem vísu að hinn opinberi fjölmiðill, með allar sínar skyldur, veiti þeim sambærilegt rúm í næsta þætti?

· Ef að sett yrði á fót rannsóknarnefnd, til að fara yfir störf rannsóknarnefndarinnar, hvaða álit ætli hún gæfi? Það þykir kannski einhverjum smámál en í lögum um nefndina eru fyrirmæli um að hún skili skýrslu sinni fyrir 1. febrúar 2010. Þetta voru ekki tilmæli heldur bein lagafyrirmæli. Nefndin fór ekki eftir þessu, eins og allir vita. Ætli rannsóknarnefnd um nefndarmennina myndi segja að það væri vanræksla að fara ekki eftir skýrum lagafyrirmælum, og myndi bæta því við að ef nefndarmenn hefðu talið sig þurfa frekari heimildir þá hefðu þeir átt að hafa frumkvæði að því að afla þeirra?

· Erlendir bankar töpuðu þúsundum milljarða króna á þroti bankanna. Þeir höfðu lánað þeim ótrúlegar fjárhæðir. Þessir erlendu bankar höfðu í sinni þjónustu færustu sérfræðinga á fjármálamarkaði sem lágu yfir öllum tölum. Samt töpuðust þúsundir milljarða. Hér á landi telja spekingar að kontóristar í eftirlitsstofnunum hafi átt að sjá allt fyrir.

· Spekingar segja að þegar tveir bankanna voru einkavæddir hafi röngum mönnum verið seldir þeir. Kaupendurnir hafi reynst vera ábyrgðarlausir og hugsa meira um eigin hag en þjóðarhag. Núverandi ríkisstjórn einkavæddi í fyrra tvo banka en enginn veit hverjir tóku við þeim. Helst er talið að erlendir vogunarsjóðir séu þar ráðandi en þeir þóttu agalegir gammar þar til að þeir eignuðust íslensku bankana. Einkavæðingin fyrri fór fram lögum samkvæmt og ríkisendurskoðun hefur farið yfir hana. Álitsgjafar reyna að kenna henni um allt sem miður hefur farið síðan. Um síðari einkavæðinguna veit enginn neitt. Álitsgjöfum gæti ekki verið meira sama.

· Áður en rannsóknarskýrslan kom út, fór biskup Íslands fram á það við söfnuði að þeir keyptu skýrsluna og létu hana liggja frammi í kirkjum. Ekki kom fram hjá biskupi hvort tvær bækur ættu þá að liggja þar frammi eða hvort skipta ætti þeirri út sem fyrir er.

· Allt frá bankahruni hefur það verið viðtekin kenning að almenningur hafi verið gagnrýnislaus á bankana. Vissulega voru margir það. Sama gagnrýnisleysi lifir enn. Það flyst bara á milli eins og býfluga sem færir sig milli blóma. Núna beinist það að rannsóknarnefnd Alþingis.

· Allt í allt er skýrsla rannsóknarnefndarinnar og gögn vel á fjórða þúsund blaðsíður. Strax snemma í gær voru spekingar búnir að kveða upp dóma sína yfir skýrslunni. Skýrslan getur auðvitað verið fín, slæm eða eitthvað þar á milli, en það er alveg ljóst að sá sem í gær taldi sig geta dæmt að einhverju gagni um efni hennar, hann veit ekkert um hvað hann er að tala. Þegar skýrsla er metin skiptir auk þess ekki aðeins máli hvað er í henni, heldur einnig hvað er þar ekki. Hvaða upplýsingum er sleppt? Voru þær mikilvægar eða þýðingarlausar? Voru réttar ályktanir dregnar af því sem fólk sagði í skýrslugjöf? Hefði kannski átt að spyrja um ýmislegt annað? Hefði átt eða mátt draga aðrar ályktanir af fyrirliggjandi gögnum en nefndarmenn gera? Var tekið of lítið, of mikið eða hæfilegt mark á andmælum? Hefði átt að veita fleira fólki andmælarétt? Eða færra fólki? Þeir sem fengu andmælarétt, var allt borið undir þá, sem um þá er sagt í skýrslunni, eða bara sumt? Hafa fréttamenn velt nokkru af þessu fyrir sér? Til að meta þessa hluti þarf bæði tíma, yfirvegun og þekkingu. Dómar í gærkvöldi eru bara gaspur.