Mánudagur 12. apríl 2010

102. tbl. 14. árg.

Þ á er rannsóknarnefnd Alþingis komin með þetta. Íslensku bankarnir hrundu vegna ofvaxtar og stórfelldra útlána, sem mörg hver voru að minnsta kosti heimskuleg ef ekki verra. Þetta er í raun sama niðurstaða og markaðurinn skilaði haustið 2008, hugsanlega með aðstoð frá breskum stjórnvöldum í tilfelli Kaupþings.

Raunar má segja að þessi niðurstaða hafi legið fyrir á markaði mun fyrr en haustið 2008. Ríkisvaldið lengdi í snörunni með ýmsum hætti svo sem sirkusferðum ráðherra og forseta í kynningarskyni fyrir bankana erlendis. Er þá ótalið það falska öryggi sem opinbert eftirlitskerfi, innlánstryggingar og þrautavaralán veittu landsmönnum. Hve löngu fyrr hefðu bankarnir glatað trausti ef ekki hefðu verið gefnar út glansmyndir af stöðu þeirra af ráðherrum og fjármálaeftirlitinu? Fjármálaeftirlitið sagði bankana standast „álagspróf“ skömmu fyrir hrun þeirra.

Það var mjög áberandi í málflutningi nefndarmanna á kynningarfundi um skýrslu hennar í morgun, ekki síst Páls Hreinssonar formanns sjálfrar nefndarinnar og Vilhjálms Árnasonar formanns undirnefndar um siðferðileg álitaefni, að svonefndir opinberir eftirlitsaðilar, ráðuneyti og stofnanir hefðu vísað hver á aðra, málin heyrðu ekki undir þá heldur einhvern annan, væru ekki á þeirra verksviði. Auðvitað eru þau svör í ýmsum tilvikum rétt, það er meginregla í stjórnsýslurétti að sama verkefnið heyrir ekki undir tvenn mismunandi stjórnvöld í senn. En meginatriðið er auðvitað það, að rekstur einkabanka er á ábyrgð eigenda og stjórnenda bankans, en ekki kontórista hjá hinu opinbera, sem enga aðstöðu eða möguleika hafa til að bera ábyrgð á umsvifamiklum einkabönkum. Þegar við blasir að eigendum og stjórnendum banka tekst ekki að halda þeim á lífi, og hafa þeir þó mesta hagsmuni af því, þá þarf enginn að láta sér detta í hug að embættismenn ríkisins, með látlausar meðalhófsreglur hangandi um hálsinn á sér, geti bætt þar einhverju við.

Menn ættu kannski að fara varlega í að bæta við eftirlitshlutverk ríkisins. Eftirlitið er orðið svo mikið að enginn telur sig lengur þurfa að bera ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Þessar eftirlitsstofnanir eru líka orðnar „sjálfstæðar“ og „faglegar“, sem þýðir víst að ráðherrar mega ekki skipta sér af starfi þeirra en eiga engu að síður að bera einhvers konar ábyrgð á þeim. Eða hvað?

Vefþjóðviljinn hefur áður sagt og leyfir sér að endurtaka hér: Líklega hefðu Íslendingar farið mun betur út úr þessu bankaævintýri ef hér hefði ekkert opinbert eftirlit verið með starfsemi bankanna umfram önnur fyrirtæki. En það verður auðvitað ekki lærdómurinn sem opinberar eftirlitsnefndir, opinberir fréttamenn eða opinberir stjórnmálamenn draga af málinu öllu. Þeir munu „sýna auðmýkt“ og auka við heimildir ríkisins til „eftirlits“, sem mun enn draga úr varkárni viðskiptavina, lánardrottna og innlánseigenda bankanna.

Og þegar næst gefur á bátinn munu fréttamenn ganga enn lengra í ópum á eftirlitsmennina sem þá eiga að hafa brugðist.