Helgarsprokið 11. apríl 2010

101. tbl. 14. árg.

Þ að er viðbúið að helsta niðurstaða skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem væntanleg mun fyrir sumarið, sé að meira eftirlit hefði þurft með fyrirtækjum. Það er undantekningarlítið niðurstaða rannsóknarnefnda af þessu tagi að auka þurfi eftirlit. Eftirlit hafi brugðist. Næst þurfi meira eftirlit. Meira af ráðunum sem dugðu ekki.

En þá hljóta menn að spyrja, hvenær er nóg nóg. Það er til að mynda ekki eins og íslenska ríkið hafi engin afskipti og ekkert eftirlit haft með fyrirtækjum og fjármálum þeirra, frá ýmsum hliðum. Þvert á móti er það og var mjög mikið. Ríkið ýmist kostar eða rekur fjármálaeftirlit, seðlabanka, viðskiptaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, samkeppnisstofnun, ríkisskattstjóra, skattrannsóknastjóra, skattstjóra, efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, umboðsmann neytenda, Neytendastofu, ráðgjafastofu um fjármál heimila, Neytendasamtök, hagdeild ASÍ, Samtök iðnaðarins, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og ótal stöður lektora, dósenta og prófessora í viðskipta- og hagfræði við háskóla og fjölbrautarskóla sem kalla sig háskóla. Hin vandaða fréttastofa ríkisins brýtur málin til mergjar. Eftirlitsstofnanir EFTA og Evrópusambandsins eru svo með nefið ofan í öllu mögulegu hér á landi og reka jafnvel á eftir því að tilskipanir frá Brussel séu þýddar jafnharðan og þær berast. Við þetta bætist svo sérstök stofnun með nær ótakmarkaðar eftirlitsheimildir gagnvart öðrum opinberum eftirlitsaðilum: Umboðsmaður Alþingis. Árin fyrir bankahrun gaf það embætti aldrei til kynna að neitt sérstakt þyrfti skoðunar við í eftirliti ríkisins með fjármálastarfsemi.

Þarna innanborðs eru mörg hundruð sérfræðingar á launum við að fylgjast með hagsæld heimila og fyrirtækja og að allt sé lögum samkvæmt. Af þessu hafa skattgreiðendur gríðarlegan kostnað.

Engu að síður fór sem fór. Markaðurinn síaði burtu fjármálastofnanir sem létu glepjast af lágum vöxtum flestra seðlabanka heimsins og lánuðu hverjum sem er hvað sem er. Víða um lönd reyndi hið opinbera að koma í veg fyrir að menn tækju afleiðingum gjörða sinna og efndi til „björgunaraðgerða“ á kostnað skattgreiðenda. Nú tveimur árum síðar er íslenska ríkið að gefa út 2.000 blaðsíðna skýrslu um málið þar sem það leggur án efa til að það efli sjálft sig.

Hve margir ofangreindra eftirlitsaðila geta með sanni sagt að þeir hafi varað við því sem var í uppsiglingu? Hverjir þeirra vöruðu heimili og fyrirtæki við erlendri skuldasöfnun? Seðlabankinn gerði það að einhverju leyti. Honum var þó ákveðinn vandi á höndum því allar yfirlýsingar hans um að hér stefndi allt í óefni gátu vart átt samleið með því lögbundna markmiði bankans að stuðla að fjármálalegum stöðugleika. Bankinn hélt síðan vöxtum mjög háum sem vissulega mátti túlka sem afdráttarlaus skilaboð um að suðan væri á leið upp úr pottinum. En um leið verðlagði hann krónuna út af markaði og beindi mönnum í lánsfé í erlendum myntum ásamt því sem menn reyndu að hagnast á vaxtamun í stórum stíl.

Til dæmis um nákvæmlega þetta má taka viðvörunarorð sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri viðhafði haustið 2007. Einhverjir kölluðu þau bjargbrúnarkenningu. Þau urðu einum af fjölmörgum hagfræðingum á launum hjá íslenskum skattgreiðendum að umtalsefni í DV 17. nóvember 2007. Blaðið spurði Guðmund Ólafsson hagfræðikennara við Háskóla Íslands: Erum við þá ekki á bjargbrúninni þótt þjóðin skuldi mikið og viðskiptahallinn sé geigvænlegur? Guðmundur svaraði

Nei það er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Þetta er bara vitleysa. Laffer blés af bjargbrúnarkenningu Davíðs Oddsonar seðlabankastjóra heyrðist mér. Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartar yfir því að almenningur kaupi leikföng.

Annar stóryrtur kennari úr Háskóla Íslands ráðlagði löndum sínum eindregið að hlusta ekki á ruglið í bönkunum þegar kæmi að lántökum til húsnæðiskaupa. Einhverjir bankanna höfðu þá varað fólk við því að taka lán í erlendri mynt ef það hefði ekki tekjur í sömu mynt.

Mér finnst hræðsluáróður íslensku bankanna um að Íslendingar verði að hafa tekjur í erlendum myntum undarlegur því öll höfum við tekjur í íslenskum krónum sem fylgja erlendum myntum þegar til lengri tíma er litið. Þær leiðbeiningar bankanna um að viðkomandi lántakandi verði að hafa tekjur í erlendum gjaldeyri til að geta tekið erlent lán eru að hluta til réttar, en byggjast á því að viðkomandi einstaklingur sé asni. Sá hinn sami hlýtur að geta stýrt fjármálum sínum og notfært sér í ofanálag lægri vexti í erlendum myntum en bjóðast hér heima.

Þeir sem kunna ekki að spila á gjaldeyrismarkaðinn eru bara asnar, sagði þessi háskólakennari og formaður félags fjárfesta, 19. febrúar 2007. Sjálfur ætlaði hann að „veðja á svissneska frankann“ með því að taka lán í svissneskum frönkum. Það ber auðvitað vott um fullkomið skilningsleysi á fjármálum ef maður heldur sig vera að veðja á gjaldmiðil með því skuldsetja sig í honum. En þetta var nú bara formaður fjárfesta að tjá sig. Hafi einhver húsbyggjandi farið að ráðum Vilhjálms Bjarnasonar hefur sá hinn sami tapað tugum milljóna króna á því að „veðja á svissneska frankann“. Hann getur hins vegar huggað sig við að Vilhjálmur er nú orðin þjóðhetja fyrir að afþakka 50 þúsund króna gjafakort.

Þarna voru tveir „sérfræðingar“ sem fylgjast vel með viðskiptum og fjármálum úti á þekju ári fyrir hrun fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins. Ef einhver hefur tekið mark á þeim hefur sá hinn sami tapað stórfé.

Hvað þarf að bæta mörgum svona sérfræðingum á launaskrá hjá skattgreiðendum til að menn telji eftirlitið vera orðið nægilegt?