Miðvikudagur 31. mars 2010

90. tbl. 14. árg.

Í nýjasta tölublaði Fiskifrétta er viðtal við Pál Guðmundsson framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Hugins í Vestmannaeyjum, sem gerir út uppsjávarskipið Hugin, en þar um borð hafa menn stundað ýmsar tilraunveiðar og urðu til dæmis manna fyrstir til að vinna makríl um borð í skipi með árangri. Páll segir

Þegar ákveðið var að smíða nýja Hugin í Chile, löngu áður en makríllinn kom til sögunnar, var horft til þess möguleika að nota þetta öfluga fjölveiðiskip til að veiða kolmunna og norsk-íslenska síld. Kolmunnaveiðar voru frjálsar en síldarkvótanum úthlutað eftir stærð skipa. Við fengum Hugin afhentan árið 2001. Tæpu ári síðar eða vorið 2002 ákvað Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra að setja kvóta bæði á kolmunna og norsk-íslensku síldina og miðaði kvótaúthlutunina við veiðireynslu þriggja ára þar á undan. Við höfðum þá einungis náð að veiða kolmunna í hálft ár á nýja skipinu og fengið um 35 þúsund tonn. Þess vegna var 15 þúsund tonna kvóti allt og sumt sem kom í okkar hlut af kolmunna við þessa úthlutun.

Við síldarúthlutunina nutum við lítillega veiðireynslu af gamla Hugin en það skilaði samt litlu vegna þess að áður hafði verið úthlutað eftir stærð skipa en ekki veiðireynslu.

Á nútímamáli heitir þetta víst að við höfum þarna fengið úthlutað „gjafakvótum“ en víst er að við bræður vorum ekkert sérlega hrifnir af kerfinu sem skerti svona möguleika okkar til að bjarga okkur. Engu að síður skiljum við að kvótakerfi og stjórnun veiða sé nauðsynleg til að ná sem mestri hagkvæmni í útgerðinni.

Eitt þeirra orðskrípa sem spilla íslenskri þjóðmálaumræðu er meinlokan „gjafakvóti“. Þegar nauðsynlegt þótti að takmarka sókn í fiskistofnana, var farin sú leið að þeir sem stundað höfðu veiðar fengu rétt til að gera það áfram, en ekki hinir. Menn sem höfðu kostað miklu til að koma sér upp skipum og veiðarfærum og stundað veiðar nutu þess. Eitt þaulsætnasta fréttaefni áratugina fyrir upptöku kvótakerfisins var „vandi sjávarútvegsins“. Eftir að sjávarútvegurinn hafði notið kosta kvótakerfisins í nokkur ár var þetta gerbreytt. Í staðinn hafði orðið til beiskja og biturð hér og hvar, þar sem velgengni sjávarútvegsins naut lítillar samgleði. Svo vel hefur sjávarútvegurinn spjarað sig að ótrúlegustu menn sitja bálreiðir í landi og sannfæra sig um að einmitt þeir hefðu gert það aldeilis gott í útgerð, bara ef aðgangur að miðunum hefði áfram verið frjáls.

Svo ótrúlegt sem það er þá var það í valdatíð vinstristjórnar Steingríms Hermannssonar sem það lykilatriði var ákveðið að heimilt yrði að framselja aflaheimildir, en það skiptir gríðarlegu máli fyrir hagkvæmni kerfisins. Í þeirri ríkisstjórn sátu þau bæði, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, og furðulegt að þau vilji nú með fyrningarleið eyðileggja það skásta sem ákveðið var á valdatíð þeirra.

Hitt er svo annað mál að auðvitað má deila um það, við hvaða veiðireynslu hafi átt að miða þegar aflaheimildum var úthlutað í upphafi. Þar er ekkert eitt svar rétt, en einhverja viðmiðun varð að velja. Sumir, eins og Huginsmenn í Vestmannaeyjum nú, höfðu fjárfest og sátu eftir með minni hlut en mörgum hefði þótt sanngjarnt. Átti að miða við þrjú ár, fimm ár, eða aðrar viðmiðanir? Það er hins vegar fyrir áratugum búið og gert. Hugmyndir um fyrningu aflaheimilda koma réttlæti og sanngirni ekkert við. Þær hafa ekki annan tilgang en að friða meinlokumenn og það á þeim tíma sem menn hefðu haldið að stjórnvöld vildu fremur efla en brjóta niður þá hluta atvinnulífsins sem ganga vel.