Líttu bara á hina auknu hagsæld í þróuðu löndunum frá seinna stríði. Jafnvel þótt þú takir hinar ýmsu kreppur, þar meðal þessa, lítur heildarmyndin vel út. Svo jafnvel þótt kreppur á borð við þessa væru gjaldið fyrir frjálsan markað – sem ég tel ekki rétt að gera þar sem ríkisafskipti eiga svo stóran þátt í þeim vandræðum sem blasa nú við okkur – já jafnvel þótt slæma kreppa væri gjaldið myndu menn engu að síður telja það réttlætanlegt.
Líttu einnig á þróunarlöndin, Kína, Indland og Brasiíu. Þar hefur milljarður manna brotist úr örbirgð frá 1990 vegna þess að þessi lönd hafa fært sig í átt að frjálsum markaði. Enginn krefst þess að snúið verði af þessari braut. |
– Gary Becker í The Wall Street Journal 29. mars 2010. |
T he Wall Street Journal átti viðtal við Gary Becker Nobelsverðlunahafa í hagfræði á mánudaginn var. Fyrsta svar hans var: Nei, nei, nei alls ekki. En það er við spurningunni hvort fjármálakrísan, versta efnahagskreppa í aldarfjórðung og útlit fyrir aukin afskipti ríkisvaldsins hafi vakið efasemdir í huga hans um ágæti hins frjálsa markaðar.
Becker er sem kunnugt er einn upphafsmanna Chicago-skólans í hagfræði ásamt Milton Friedman. Þótt Becker sé orðinn 79 ára sinnir hann en fullri kennslu við skólann og heldur úti einu áhugaverðasta bloggi heimsins ásamt Richard Posner dómara. Bloggið hefur stundum orðið Vefþjóðviljanum að ástæðu til að koma út einn og einn dag.
Um ástæður kreppunnar nú um stundir segir Becker að Seðlabanki Bandaríkjanna hafi haldið vöxtum of lágum of lengi. Hinir hálfopinberu íbúðalánasjóðir Fannie Mae og Freddie Mac hafi tekið þátt í undirmálslánamarkaðinum. Þegar krísan fór að vinda upp á sig brugðust eftirlitsaðilar seint og illa við. Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið hafi áttað sig seint og fjármálaeftirlitið alls ekki. Fáir hafi áttað sig á þeirri áhættu fyrir fjármálakerfið sem nýjar fjármálaafurðir höfðu í för með sér.
Eins og inngangsorð hér að ofan bera með sér þylur Becker svo upp þann ávinning sem menn hafi haft af markaðsfrelsi fyrr og nú. En eru það veigamestu rökin fyrir frelsi, að kakan stækki hratt þegar á heildina er litið? Nei, frelsið er ekki niðurstaða af ófullkomnum hagmælingum á hagstofum heimsins. Þótt það sé vafalaust ekki tilviljun að frelsi fylgi almennt hagsæld á það ekki að vera háð niðurstöðu hagvaxtarmælinga hvort menn megi skiptast óhindrað á verðmætum, vörum og þjónustu.
Því miður hafa frjálslyndir menn gleymt sér í velgengni undanfarinna áratuga. Það er fyrirhafnarlítið að verja frelsið á meðan það skilar mikilli hagsæld, allir hafa atvinnu og peningar streyma einnig í ríkiskassann svo menn þurfa ekki að neita sér um neitt.
Það þarf að koma því miklu betur til skila að frelsið er dýrmætt – óháð hagvexti.