Þriðjudagur 30. mars 2010

89. tbl. 14. árg.

J óhanna Sigurðardóttir boðaði um helgina miklar sameiningar stofnana og fækkun þeirra. Er það auðvitað vinstrigrænum lítt að skapi, en í herbúðum Jóhönnu þarf enginn að hafa áhyggjur af því.

Auðvitað kvartar Vefþjóðviljinn ekki yfir fækkun opinberra stofnana, ef hún verður til sparnaðar hjá hinu opinbera. Blaðið vill meira að segja leggja sitt af mörkum með því að gefa ráð. Hvernig væri að byrja á „umboðsmanni skuldara“ sem sama ríkisstjórn boðaði í síðustu viku að hún hygðist setja á fót?

Í gær var fjallað hér um þau ólíku tök sem fréttamenn taka núverandi stjórnvöld og ýmis fyrri. Sú tilhneiging er ekki aðeins hjá fréttamönnum.

Sem dæmi má nefna viðtal sem Vísir birti við Elínu Björgu Jónsdóttur formann BSRB, um þau tíðindi að forsætisráðherra vildi sameina áttatíu ríkisstofnanir. Elín Björg segir að hún hefði fyrst orðið undrandi en svo hafi hún hugsað meira. Eða svo hennar eigin orð séu notuð: „Fyrstu viðbrögð frá mér voru þau að ég var undrandi vegna þessa fjölda stofnana. En ég hlýt að horfa til þess að aðalmarkmiðið hljóti að vera það að standa vörð um grunnþjónustuna“, segir formaður BSRB í viðtalinu og haft er eftir henni að hún geri „ráð fyrir að menn séu að reyna að sameina stofnanir til þess að hafa fjármagn til þess að setja í velferðarþjónustuna“.

Hvernig halda menn að formaður BSRB hefði látið ef forsætisráðherra annarrar ríkisstjórnar hefði fyrirvaralaust boðað sameiningar áttatíu opinberra stofnana? Hversu margar fyrirsagnir ætli hefðu þá fengist?

· Ekkert samráð var haft við verkalýðshreyfinguna
· Þessu verður ekki tekið þegjandi
· Störfin verða varin
· Enginn veit hvað verður sameinað – fólk er hrætt
· Frjálshyggjan verður stöðvuð
· Krefjumst viðræðna
· Samningum sagt upp, ef þetta gengur eftir
· Stjórnvöld grafa undan velferðarkerfinu
og svo framvegis.

En núna fer formaður BSRB að fyrra bragði að verja yfirlýsingu forsætisráðherra. Aðgerðunum hljóti að vera ætlað að „standa vörð um grunnþjónustuna“.

Og ekkert mun hagga stuðningi Ögmundar Jónassonar við stjórnina. Ekki deplaði hann auga þegar ríkisstjórnin bar fram og fékk samþykkt frumvarp um stöðvun löglega boðaðs verkfalls á dögunum. Nú segir hann ekki orð yfir hugmyndum um sameiningar áttatíu ríkisstofnana. Hann kannski gefur sér að ríkisstjórnin efni jafn mikið af þeim hugmyndum og öðrum.