Mánudagur 29. mars 2010

88. tbl. 14. árg.

Á

Standiði á fætur, ræflar, svo að fólk sjái ykkur. Ég er þreyttur á þessu kjaftæði.

flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar hélt Jóhanna Sigurðardóttir áfram að lítillækka svokallaðan samstarfsflokk sinn, enda getur hún treyst því að hvorki samstarfsflokkurinn né fréttamenn muni bregðast við.

Hvernig halda menn að fréttamenn hefðu látið á þeim árum er formaður Sjálfstæðisflokksins leiddi tveggja flokka ríkisstjórn, ef hann hefði talað svo? Ef fréttamenn, álitsgjafar og fræðimenn, sem iðulega reyndu að spilla stjórnarsamstarfi með því að gefa í skyn að minni stjórnarflokkurinn væri „hækja“ hins, hefðu fengið upp í hendurnar yfirlýsingar eins og þær sem Jóhanna lét ganga um helgina, hvernig hefðu þeir látið? Hversu oft hefði þeim tekist að endurtaka þær, hversu margir fræðimenn og óánægðir flokksmenn minni stjórnarflokksins hefðu fengist í viðtal eftir viðtal? Bunan hefði verið samfelld.

En núna var reynt eins og menn gátu að tala um eitthvað annað, í þeirri von að ekki yrði meira úr málinu. Almenn orð um mögulega fækkun stofnana var gert að helsta fréttamáli ræðunnar í ríkisútvarpinu.

En vettlingatökin sem fréttamenn og álitsgjafar taka núverandi ríkisstjórn eru auðvitað nær alger. Og í samanburði við vinnubrögð þeirra áður, verða þau enn merkilegri.
Tökum sem dæmi uppákomuna sem varð á dögunum á fjölmennum fundi þar sem Steingrímur J. Sigfússon stóð í ræðustóli og skipaði nafngreindum fundarmönnum, sem höfðu gagnrýnt störf hans opinberlega, að standa á fætur. Þeir stóðu upp og fjármálaráðherrann lét skammirnar dynja á þeim úr ræðustólnum. Þegar fréttamenn töluðu við ráðherrann eftir fundinn tóku þeir niður og sendu gagnrýnislaust út að ráðherrann væri orðinn þreyttur á því kjaftæði að hann stæði sig ekki nógu vel.

Hvernig hefðu fréttamenn og álitsgjafar látið ef aðrir stjórnmálamenn hefðu talað svona? Hversu margar greinar og pistlar hefðu komið frá álitsgjöfum um að menn væru vitfirrtir, þyldu ekki gagnrýni og hefðu verið allt of lengi við völd?

Og hvað sögðu álitsgjafarnir um Steingrím? Eða fréttamennirnir, hvað gerðu þeir úr málinu og hversu oft hafa þeir rifjað það upp síðan? Kannski jafn oft og þeir hafa spurt hann og Jóhönnu hvar „tilboðið“ sé, sem var „á borðinu“ og gerði fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu lýðveldisins svo „marklausa“ að hvorugur ráðherrann nennti á kjörstað.