Helgarsprokið 28. mars 2010

87. tbl. 14. árg.

Í síðustu viku sagði Vefþjóðviljinn frá nýútkomnu vorhefti tímaritsins Þjóðmála og kom þar fram að meðal efnis í því væri grein Örvars Arnarsonar viðskiptafræðings, um Icesave og sérfræðidýrkun. Í þeirri grein kemur ýmislegt fróðlegt fram. Segir Örvar þar meðal annars frá samskiptum sínum við sérfræðing erlends matsfyrirtækis, en sumir gera mikið með álit þeirra.

Mér blöskraði nýlega skýrsla frá einu af stóru matsfyrirtækjunum. Þar var fullyrt að Íslendingar væru að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart innistæðueigendum í Icesave með því að samþykkja Icesave-samninginn. Ég hringdi í kauða og óskaði eftir því að hann myndi rökstyðja fyrir mig þessa staðhæfingu. Sérfræðingurinn var alveg sannfærður um að við skulduðum þetta. Ég spurði af hverju og hann sagði að ef við ekki borguðum væri það bara eins og að borga ekki skuldabréf sem ríkið hefði gefið út. Ég benti honum á að innistæðusjóðurinn væri sjálfstæð stofnun og lög bentu til þess að ekki væri ætlast til að ríkið kæmi honum til bjargar. Hann hafði engar lögfræðilegar skýringar, sagðist heldur ekki vera lögfræðingur, bara sérfræðingur. Eftir dálítið karp sagði hann mér að skuldbinding Íslands tengdist því að landið hefði samþykkt skilyrði AGS varðandi lánveitingar frá Norðurlöndunum Þau (svokallaðir vinir okkar) krefðust þess að að Ísland borgaði Icesave-reikninginn. Hann var kominn í vörn.

Ég spurði hann hvað hann mæti kostnað ríkisins af þessari ábyrgð. Hann sagði að það væri einhvers staðar á bilinu 0 til höfuðstóls lánsins. Ég benti honum á að með 5,55% vöxtum og öllum öðrum kostnaði Bretanna gæti þetta orðið miklu hærri upphæð en höfuðstóllinn. Þegar hann las yfirlit um þessi orðaskipti okkar í tölvupósti sem ég sendi honum eftir samtalið krafðist hann þess að ekki yrði vitnað í svör hans. Þessi sérfræðingur matsfyrirtækisins vildi ekki að rökstuðningur fyrir fullyrðingum í skýrslu hans liti dagsins ljós! Þess vegna sýni ég honum þá dæmalausu virðingu að skýra ekki frá því við hvaða heimsþekkta matsfyrirtæki hann starfar. Það skiptir heldur engu máli, þetta er dæmi um starfsaðferðir matsfyrirtækjanna allra að mínu mati. Sjálfur taldi þessi ágæti sérfræðingur að það eina sem út af stæði frá samþykki Icesave-laganna í haust og til viðaukasamningsins væri lokaár ábyrgðarinnar 2024 sem Bretar og Hollendingar samþykktu ekki. Hann hafði ekki hugmynd um Ragnars Hall-ákvæðið, Brussel-viðmiðin og endurskoðunarákvæðið, allt mikilvæg atriði sem voru þynnt út.

Í greininni varar Örvar við sérfræðingadýrkuninni sem breiðist nú um landið eins og eldur í sinu. Hvernig stendur á því að viðskiptafræðingur úti í bæ telur sig þurfa að hringja sjálfur í sérfræðing matsfyrirtækis sem hafði sent frá sér þvætting um íslensk málefni? Ætli það sé ekki fyrst og fremst vegna þess að íslenskir fjölmiðlamenn höfðu ekki hugmyndaflug til þess. En ekki hafði vafist fyrir þeim að endursegja kenningar matsfyrirtækisins og það um atriði þar sem hver sæmilega upplýstur maður, og jafnvel fréttamenn, mátti vita að var fjarri sanni. En þegar „sérfræðingar“ tala, þá þagna aðrir. Eða öllu heldur, þá slokknar á hugsun þeirra, þó talfærin vinni áfram. Fréttamenn þylja upp niðurstöður „sérfræðinga“ gagnrýnislaust, einkum ef þær eru í nógu löngu máli. Engir skila lengri niðurstöðum en samkeppnisráð og umboðsmaður alþingis. Þar geta menn fengið hundrað blaðsíðna niðurstöður, sem auðvitað enginn maður les með opnum og gagnrýnum huga. Menn bara gefa sér að í svo löngu máli hljóti að vera mikið af skotheldum rökum. Fréttamenn láta sér nægja að lesa lokaályktanir hins sérfróða stjórnvalds upp, alvarlegir í bragði. Stundum þykir hrein goðgá að vefengja niðurstöðurnar. Það heitir að verið sé að „grafa undan“ álitsgjafanum. Af og til gerist það að fréttamenn tala við sérfræðinga matsfyrirtækjanna. Það samtal fer þannig fram að sérfræðingurinn þylur eitthvert atriði upp úr nýjustu skýrslunni, og fréttamaðurinn sendir það út. Það er nær óþekkt að fréttamenn yfirheyri sérfræðingana um hvað þeir hafi í raun fyrir sér, í öllum fullyrðingunum.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Örvar

Niðurstöður „sérfræðinga“ eru oft og iðulega ekki staðfesting á einu né neinu. Hins vegar láta stjórnmálamenn og fréttamenn gjarnan eins og svo sé. Gagnrýni er engin, „sérfræðingarnir“ hafa talað. Ef skynsamur einstaklingur skilur ekki rök rök sérfræðings eða ef sérfræðingur rökstyður ekki niðurstöðu sína ætti einstaklingurinn skilyrðislaust að virkja skynsemi sína og treysta eigin dómgreind. Augljóslega á ég ekki við að allar skýrslur sérfræðinga séu ekki pappírsins virði, en það er góð regla að ganga ekki að neinu sem vísu þegar álit sérfræðinga eiga í hlut.