Laugardagur 27. mars 2010

86. tbl. 14. árg.

R íkisstjórnin hefur boðað að niðurfelling skulda verði skattlögð með tekjuskatti enda um ívilnun að ræða. Það er vissulega í samræmi við þá stefnu stjórnarinnar að ekkert geti gerst í landinu án þess að skatturinn fái sitt.

En þá er kannski rétt að benda stjórninni á að minnsta kosti tvö mál sem fóru alveg framhjá skattinum.

Eigendur bréfa í peningamarkaðssjóðum fengu væna uppbót á sparifé sitt sem hafði þá tapast að verulegu leyti við hrun bankanna og fleiri félaga. Sumir fengu þannig tugi milljóna króna í ívilnun. Ætti sú ívilnun ekki að vera skattlögð líkt og niðurfelling skuldanna?

Innstæðueigendur hjá gömlu bönkunum áttu á hættu að tapa verulegum fjárhæðum við hrun bankanna. Þeir voru færðir fram fyrir aðra kröfuhafa og fengu innstæður sínar að fullu bættar, sama hve háar þær voru. Hvaða skattur var greiddur af þeirri ívilnun?

T ímaritið Euromoney hefur birt mikla skammargrein um Ísland. Þar er meðal annars upplýst um þá vanvirðu að Fjármálaeftirlitið hafi deilt húsnæði með núðlustað á Suðurlandsbraut. Suðurlandsbraut sé svo í órafjarlægð frá Borgartúninu þar sem bankarnir störfuðu.

Það var allt í steik á Íslandi og hálfvitar sem stýrðu bönkum jafnt sem öðru.

Hvaða tímarit valdi Kaupþing besta banka Norðurlanda og Eystrasalts árið 2007?