Föstudagur 26. mars 2010

85. tbl. 14. árg.

F réttamenn hafa sagt frá því í örfáum orðum í vikunni að stjórnvöldum hafi ekki tekist að fá fram nýjar viðræður um Icesave-kröfur Breta og Hollendinga. Frá þessu er sagt eins og í því séu litil tíðindi fólgin og fáar spurningar vakni.

Hvers vegna fara fréttamenn ekki yfir samfelldar yfirlýsingar ráðamanna, vikurnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í byrjun mánaðarins, þar sem fullyrt var aftur og aftur að atkvæðagreiðslan væri óþörf og markleysa þar sem betra tilboð væri á borðinu? Af hverju spyrja fréttamenn ekki ráðherrana, sem ekki fóru á kjörstað því miklu betra tilboð var komið, hvers vegna þeir gangi þá ekki að tilboðinu sem þeir sögðu fólki að væri „á borðinu“? Hvers vegna er ekki farið yfir ítrekaðar yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur um „tilboðið“, sem varð til þess að formaður Samfylkingarinnar tók ekki þátt í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu lýðveldissögunnar? Var „tilboðið“ bara tilbúningur Jóhönnu, ætlaður til þess að draga úr þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni? Hvers vegna þegja fjölmiðlamenn og álitsgjafar eins og þeir geta um þetta?

Og fleira er þagað um. Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna spurði Morgunblaðið stjórnmálamenn hvort þeir hefðu tekið þátt í henni og hvernig þeir hefðu kosið. Flestir svöruðu, en á því voru þó undantekningar. Þannig neitaði Dagur B. Eggertsson varaformaður Samfylkingarinnar að upplýsa hvort hann tók þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni og sama gerði meðal annars einn þingmaður flokksins, Jónína Rós Guðmundsdóttir.

Sú þögn Jónínu hefur enn ekki vakið mikinn áhuga fjölmiðlamanna. Í janúar krafðist Jónína Rós þess opinberlega að forseti Íslands segði af sér, vegna þess að hann hefði synjað ríkisábyrgðarlögunum staðfestingar. Sami þingmaður og krefst afsagnar forseta Íslands vegna synjunar laga, neitar að upplýsa hvort hann sjálfur hafi tekið þátt í kosningu um þessi lög sem honum þóttu svo mikilvæg. Kannski Jónína Rós vilji líka afsögn þeirra ráðherra sem ekki hafa enn gengið að „tilboðinu“ sem var víst „á borðinu“ um daginn. Enginn spyr hana að því, frekar en að neinu öðru.