Miðvikudagur 24. mars 2010

83. tbl. 14. árg.

Á

Bannað á Íslandi, leyft í Saudi-Arabíu. Mótatkvæðalaust.

síðustu árum hefur skemmtanalíf Íslendinga stundum fengið liðsauka að utan. Þaðan hefur komið fólk og haldið Íslendingum skemmtanir, dansað, fett sig og brett, og hefur gjarnan meira verið lagt upp úr innihaldi en umbúðum við þær skemmtanir. Búningar hafa til dæmis fremur þótt aukaatriði, en engu að síður hafa þessar skemmtanir gert stormandi lukku.

Meðal þeirra sem hingað hafa komið í þessum tilgangi er hópurinn Chippendales, sem komið hefur oftar en einu sinni og skemmt fyrir fullu húsi í stærstu samkomuhúsum. Áhorfendur, sem munu í langflestum tilvikum hafa verið íslenskar konur, hafa tekið þátt í gleðinni og stemmningunni með ópum og skrækjum langt fram eftir kvöldi. Hinir erlendu dansarar hafa í viðtölum lýst því hvernig þeir hafi haldið móðir og klóraðir til hótelherbergja sinna að lokinni skemmtun, slík hafi verið ánægja áhorfenda. Hafa þeir þannig farið meinlausari för en mörg starfsystir þeirra hefur gert, en þeirra áhorfendur hafa yfirleitt látið sér nægja að hlutgera þær.

En nú er sagt í fréttum að þetta sé liðin tíð. Fréttamenn segja að Alþingi hafi í gær samþykkt lög sem banni fólki að koma nakið fram á skemmtunum og samkomum, án þess þó að útskýrt hafi verið hvað Hilmir Snær hafi til saka unnið. Þá er ekki heldur útskýrt í fréttunum hvernig bann þetta stenst atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, enda hefur ekki verið sýnt fram á neina almannahagsmuni í málinu. Það verður að minnsta kosti forvitnilegt að heyra fulltrúa trúarbragðalögreglunnar við Austurvöll útskýra fyrir meðlimum Chippendales, næst þegar þeir koma, að þeir megi ekki dansa á Íslandi, því starf þeirra sé „gróðrarstía mansals“, eins og alþingismenn hika ekki við að fullyrða, þó samanlagður fjöldi þeirra, sem dæmdir hafa verið fyrir slíka starfsemi á Íslandi, og tengjast nektardansstöðum, sé núll.

Og auðvitað mun nektardansbannið hafa verið samþykkt mótatkvæðalaust. Stjórnarandstöðuþingmenn eru dæmalausir vesalingar, skjálfandi af hræðslu við pólitíska rétttrúnaðinn, enda hlýtur að koma að því að flokksmenn þeirra fái meira en nóg af samfelldum ræfildómi og skipti þeim nær öllum út, næst þegar þeir fá færi á þeim.

Ekki vekur heldur undrun heldur að stjórnarþingmenn hafi tekið glaðir þátt í vitleysunni. Fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að eyða mánuði í að koma gömlum andstæðingi úr Seðlabankanum. Næstu lagasetningar snerust um vændi og flengingar. Eftir kosningar var mikilvægasta málið að breyta nafni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Svo fann heilbrigðisráðherra áratugagamalt ónotað lagakvæði um afkynjanir og kom sér í nokkra fréttatíma með frumvarp um að afnema það, sem ekki þoldi nokkra bið. Nú hafa þingmenn reynt að banna nektardans. Næstu frumvörp eru sögð vera bann við ljósabekkjum og auglýsingum á léttöli. Þar á eftir kemur líklega gamalt baráttumál vinstrigrænna: að nýburar séu ekki bleikum og bláum samfestingum á fæðingardeildinni. Og ef ekki það, þá stjórnlagaþing.

Nei, það er ekki furða að Steingrímur J. Sigfússon hreyti út úr sér að hann sé orðinn þreyttur á því kjaftæði að ríkisstjórnin geri ekkert.