Þriðjudagur 23. mars 2010

82. tbl. 14. árg.

Þ að er rannsóknarefni þótt það sé ekki af geðslegra taginu hvenær og hvers vegna Indriði H. Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri fór að líta niður á og leggja fæð á skattgreiðendur á Íslandi. Á AMX er vitnað til nýlegra skrifa Indriða um Icesave málið.

Obbinn af ICESAVE sparendum var venjulegt almúgafólk í þessum löndum. Fólk með lítið milli handanna, sem það reyndi að drýgja með góðri og öruggri ávöxtun. Lífeyrisþegar, sem vildu auka framfærslufé sitt, ungt fólk sem var að nurla saman fyrir útborgun í íbúð, námsmenn að safna fyrir framhaldsnámi og verkafólk að spara fyrir sumarleyfisferðina 2009. Kannast einhverjir við svona fólk? Eru þessir „fjármagnseigendur“ stórkapitalistar?

Svo íslenskir skattgreiðendur eiga að bera tapið af Icesave-viðskiptunum vegna þess að obbi þeirra sem lögðu inn á Iceave var almúgafólk í Hollandi og Bretlandi.

En hér eru tíðindi fyrir Indriða: Obbinn af skattgreiðendum á Íslandi er líka venjulegt almúgafólk, lífeyrisþegar sem vilja auka ráðstöfunarfé sitt, ungt fólk sem er að nurla saman fyrir útborgun í íbúð, námsmenn að safna fyrir framhaldsnámi og verkafólk að spara fyrir sumarleyfisferðina 2010. Er þetta fólk „stórkapítalistar“ Indriði? Hvers vegna á íslenskt almúgafólk að sitja uppi með skuldir sem einkafyrirtæki stofnaði til við almúgafólk í öðrum löndum? Það eru engin lög eða samningar sem kveða á um slíkt enda hefði þá vart verið þörf á sérstökum Icesave samningum eða lögum um ríkisábyrgð.

Það er ekki ofmælt hjá Indriða að venjulega almúgafólkið í Bretlandi og Hollandi sem lagði inn á Icesave var að reyna að drýgja tekjur sínar með „góðri“ ávöxtun. Það reyndi að fá bestu ávöxtun. Og það var tilbúið til að leggja peningana inn á netreikning banka sem það þekkti hvorki haus né sporð á. Það var allt öryggið sem það sótti í.

Indriði H. Þorláksson og vinnuveitandi hans hafa undanfarið ár hækkað nær alla skatta á alla skattgreiðendur á Íslandi. Sumir hafa misst vinnuna og svo heimilið vegna þessara skattahækkana. Obbinn af þessu fólki er venjulegt almúgafólk. En að vísu íslenskt.