Mánudagur 22. mars 2010

81. tbl. 14. árg.

Í síðustu viku kom út vorhefti tímaritsins Þjóðmála, sneisafullt af forvitnilegu efni, en Þjóðmál fjalla oft um málefni sem aðrir fjölmiðlar taka ekki á. Fyrirferðarmesta efnið að þessu sinni er úttekt tímaritsins á því sem það nefnir „Himalaja-hneykslið“, sem talsvert hefur verið í alþjóðlegum fréttum. Fyrir tveimur árum sendi loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna frá sér mikla skýrslu, þar sem því var haldið fram, að jöklar bráðnuðu nú svo hratt að þeir gætu verið horfnir úr Himalaja-fjallgarðinum árið 2035, með hrikalegum afleiðingum fyrir hundruð milljóna manna. Síðar kom í ljós að þessi niðurstaða loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, en óspart er vitnað til álits þeirrar nefndar til að boða heimsendatrú vegna loftslagshlýnunar, reyndist ekki byggð á neinum formlegum rannsóknum heldur á átta ára gamalli tímaritsfrétt, sem hafði verið byggð á stuttu símtali við lítt þekktan indverskan vísindamann, Syed Hasnain að nafni.

Þetta furðulega mál tengist Íslandi, en eins og menn vita eiga Íslendingar leiðtoga á heimsmælikvarða, Ólaf Ragnar Grímsson, og hann hefur farið um heiminn undanfarin ár og boðað bráðnun Himalaja-jöklanna. Hefur hann meðal annars stuðlað að samstarfi íslenskra vísindamanna við fyrrnefndan Syed Hasnain. Þá tengist málinu lítt þekkt íslensk stofnun. Forsetinn kom að því á árinu 2008 að sú stofnun fengi hálfrar milljónar Bandaríkjadala styrk, um 65 milljónir króna, frá Carnegie stofnuninni í New York, og skyldi verja styrknum til áframhaldandi rannsókna Hasnains, eins og rakið er í úttekt Þjóðmála. Sú úttekt verður ekki rakin frekar hér, en áhugamönnum um ný og ný undrunarefni frá Bessastöðum er bent á vorhefti Þjóðmála.

Ótalmargt fleira er í Þjóðmálum. Ragnar Árnason hagfræðiprófessor skrifar um áhrif skattahækkana á efnahagskreppu og kemst að þeirri niðurstöðu að „því meira sem skattar eru hækkaðir þeim mun minni verður hagvöxturinn og þeim mun hægar gengur að komast út úr kreppunni.“ Örvar Arnarson viðskiptafræðingur skrifar um „sérfræðidýrkun og Icesave“ og varar við því að menn trúi rökstuðningslausum fullyrðingum „sérfræðinga“ eins og nýju neti. Birtir hann meðal annars sláandi frásögn af samskiptum sínum við sérfræðing heimsþekkts matsfyrirtækis, sem hafði sett fram stórar fullyrðingar um Ísland og Icesave, en reyndist svo vart hafa hugmynd um hvað málið snerist.

Áhugamenn um íslenska þjóðmenningu fá sitt í vorhefti Þjóðmála en Atli Harðarson heimspekingur skrifar um Snorra Sturluson og stjórnmálastefnur 13. aldar, og segir að þá hafi tekist á þeir sem byggðu á stjórnskipan frjálsra og jafnsettra innlendra höfðinga, og þeir sem hölluðust að tvískiptu valdi konungs og biskups. Greinin er áhugaverð og skýrlega skrifuð eins og annað frá Atla. Ekki síðri er svo grein Viðars Pálssonar, doktorsnema í miðaldasögu, um nýútkomna sögu Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson.

Vitaskuld verður aðeins brot af efni Þjóðmála rakinn hér. Þó skal minnst á þarfa grein ritstjórans um furðumál sem nýlega gekk aftur í fréttum, kenninguna um að þýskur prins hafi skömmu fyrir lýðveldisstofnun næstum orðið konungur Íslands og það í boði ýmissa íslenskra valda- og áhrifamanna. Fjöðrin sem varð að hænsnahópi mun vera sú að tónskáldið Jón Leifs nefndi slíka hugmynd eitt sinn við þann þýska, sem var víst ekki með öllum mjalla. Jón mun ekki hafa nefnt þetta aftur og enginn Íslendingur fyrr eða síðar. Engir íslenskir valda- eða áhrifamenn komu við sögu. En af og til skýtur sagan upp kollinum í fréttum og telja fréttamenn sig stundum hafa dottið niður á stórfrétt.

Áskrift að Þjóðmálum fæst í Bóksölu Andríkis og þar má einnig kaupa stök hefti. Allir sem vilja fylgjast með vitiborinni umræðu um íslensk þjóðmál ættu að vera áskrifendur Þjóðmála.