Helgarsprokið 21. mars 2010

80. tbl. 14. árg.

E ins og Hannes H. Gissurarson bendir á í nýrri bók sinni Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör fara þær kenningar vart saman að á síðasta áratug 20. aldar hafi annars vegar skattar verið hækkaðir mjög og hins vegar hafi Ísland vikið af hinni norrænu leið og lagst í frjálshyggju. Þessu hefur Stefán Ólafsson prófessor til að mynda haldið mjög stíft fram. „Davíð Oddsson og hjálparkokkar hans eru því stórtækustu skattheimtukóngar lýðveldisins“, skrifaði Stefán árið 2006.

Stefán hefur á undaförnum árum verið mjög upptekinn af því að rugla fólk í ríminu í skattamálum, ekki síst skömmu fyrir kosningar. Hann benti í sífellu á að tekjur ríkisins hefðu aukist og menn greiddu hærra hlutfall launa sinni í skatt en áður. En það var ekki vegna þess að skatthlutföll hefðu verið hækkuð heldur voru tekjur manna að aukast. Við auknar tekjur greiddu menn hærra hlutfalla launa sinni skatt. Tekjur ríkisins jukust því jafnframt hressilega á þessum árum, bæði beint og óbeint. Hækkandi tekjum fylgdi aukin neysla á vörum sem bera mjög háa skatta og gjöld eins og bílar. Því miður fylgdu útgjöld ríkis og sveitarfélaga í kjölfarið. Stóra vandamálið í ríkisrekstrinum nú er að á undanförnum áratugum hefur verið efnt til alls kyns útgjalda sem þjóðin hefur engin efni, allra síst á nú þegar slegið hefur svo hressilega í bakseglin.

Því miður bendir ekkert til að slá eigi þessi verkefni af. Einu sparnaðarhugmyndir ríkisstjórnarinnar eru skilaboð um almennan niðurskurð um örfá prósent, en sú aðferð hefur aldrei skilað árangri. Eina raunhæfa sparnaðarleiðin er að fækka verkefnum á könnu ríkisins.

Hannes vekur hins vegar athygli á öðrum skatti í bók sinni sem lækkaði verulega á árunum 1991 til 2005 frá því sem áður hefði verið. Það er hin ósýnilega skattheimta sem kallast verðbólga eða rýrnun á verðmæti peninga.

Oft hefur verið á það bent að verðbólga jafngildir í raun skatti á eigendur og notendur peninga. Virði eignar þeirra rýrnar. Þetta sést best á því að skoða mann sem hefur eina milljón í tekjur á einu ári og greiðir 300 þúsund af þeim í skatt. Berum þetta saman við annan mann sem á eina milljón í peningum (eða kröfum á aðra) í upphafi árs en býr við svo mikla verðbólgu, að eftir árið getur hann aðeins keypt fyrir þetta fé sitt neysluvarning að verðmæti 700 þúsund krónur. Niðurstaðan er sú sama í báðum dæmum: Mennirnir eru 300 þúsundum fátækari. Setjum svo að þriðji maðurinn búi við sömu verðbólgu og annar maðurinn. Ef hann tók eina milljón króna að láni í ársbyrjun og til eins árs, þá þarf hann í árslok að greiða aftur sem svarar 700 þúsundum króna. Hann hefur grætt (sparað sér) sömu upphæð og annar maðurinn tapaði. Um verðbólguskattinn má almenn segja að skatthlutfallið sé verðbólga hvers ár, en skattstofninn fólginn í peningamagni í umferð, seðlum, mynt og óverðtryggðum innstæðum. Þess hefur verið getið til að árið 1988 hafi verðbólguskatturinn numið um 3% af vergri landsframleiðslu.

Hannes segir að verðbólguskatturinn bitni harðar á þeim sem geyma hátt hlutfall eigna sinna í peningum og færa megi fyrir því rök að skatturinn bitni harðast á efnalitlu fólki.

Þegar þær skattahækkanir eru taldar upp sem vinstri stjórnin hefur boðið landsmönnum upp á undanfarið eru þuldar upp er mikilvægt að muna eftir þessum ósýnilega skatti.

En nú þegar öll skatthlutföll hafa verið hækkuð á fyrsta starfsári norrænu velferðarstjórnarinn hefur Stefán Ólafsson líklega alveg misst áhugann á því að upplýsa fólk um helstu skattheimtukónga lýðveldisins.