Mánudagur 15. mars 2010

74. tbl. 14. árg.

S amkvæmt fréttum tekst nú ekki að efna til nýrra funda um „lausn Icesave-málsins“, en eins og vera ber í heimi, þar sem flest snýr öfugt, eru það þeir, sem þykjast eiga kröfu, sem neita að halda fund, en hinir, sem ekki skulda neitt, sækja fast að fá fund til að semja um greiðslur.

Fréttamenn sleppa auðvitað tveimur lykilspurningum, þegar þeir taka dagleg viðtöl sín við Steingrím J. Sigfússon um málið.

Fyrri spurningin er auðvitað hvers vegna Íslendingar eru sífellt að biðja um fund. Ekki eru þeir að gera kröfur á hendur Bretum og Hollendingum. Hvers vegna ættu Íslendingar að biðja um fund?

Hin spurningin blasir ekki síður við: Var þjóðaratkvæðagreiðslan á dögunum ekki „marklaus“, „óþörf“ og „skrípaleikur“, af því að „nýtt og betra tilboð liggur á borðinu“

Og þegar búið er að svara þessu, þá má spyrja áfram: Hvar er það tilboð? Af hverju gengur ríkisstjórnin ekki að því, ef hún telur það miklu hagstæðara en samninginn sem hún sjálf þrýsti gegnum alþingi í desember.

En enginn fréttamaður spyr að þessu.

F yrir nokkrum dögum fóru fjórir bandarískir bankar á höfuðið.

Hafa þá tuttuguogsex bankar komist þar í þrot á síðustu tíu vikum. Eins og Íslendingar vita þá er það hinu opinbera að kenna ef bankar fara á hausinn. Þess vegna hlýtur bandaríska þingið að setja þegar á fót rannsóknarnefnd til að rannsaka þessi bankaþrot. Og þar sem að sökin á þroti einkafyrirtækja er hvorki hjá stjórnendum þeirra né eigendum, heldur ráðherrum og opinberum stofnunum, þá munu Bandaríkjamenn aðallega setja í nefndina sérfræðinga í stjórnsýslurétti. Þeir munu svo skoða vandlega hvort ríkisstjórn og eftirlitsstofnanir hafi ekki örugglega fylgt stjórnsýslureglum í aðdraganda bankahrunsins. Fjölmiðlamenn og álitsgjafar munu vart geta sofið af spenningi yfir væntanlegri skýrslu stjórnsýslufræðinganna.

Þannig er þetta gert í alvörulöndum.