M enn muna kannski eftir því þegar klappað var fyrir manninum sem kom á hjóli á landsfund vinstri grænna. Einhverjir muna kannski líka eftir því að þegar vinstri grænir í R-listanum fóru með stjórn umhverfismála í Reykjavík fjölgaði bensínstöðvum í borginni um 50%, borgarbúar slógu höfuðborgaheimsmetið í bílaeign og farþegum í strætó snarfækkaði. En ekki nóg með það. Um leið og þeir komust í ríkisstjórn tók varaformaður þeirra, Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, ákvörðun um að byggja gríðarlegt bílageymsluhús undir 1600 bíla við tónlistarhúsið þótt ekki séu til peningar fyrir því í ríkissjóði. Til að steypa botnplötu bílageymslunnar þurftu steypubílar að fara 400 ferðir eins og aðstandendur hússins greindu frá með talsverðu stolti.
Og áfram heldur dekur vinstri grænna við einkabílismann. Í gær spurðust út áætlanir ríkisstjórnar þeirra um að fella niður lán á einkabílum í stórum stíl. Þumalputtareglan er: Því stærri og dýrari bíll því rausnarlegri verður niðurfellingin á lánum. Þeir sem lögðu ekkert fé sjálfir í bílakaupin fá meira fellt niður en hinir sem voru svo vitlausir af safna fyrir hluta kaupverðs.
Var ekki örugglega bæði klappað og hlegið að manninum á hjólinu?
J óhann Hauksson blaðamaður á DV fékk verðlaun Blaðamannafélags Íslands á dögunum. Einn þeirra sem hafði veg og vanda að valinu með setu í dómnefnd var Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Lúðvík hefur áður getið sér gott orð sem mannþekkjari. Til að mynda árið 1997 þegar hann var spurður í Vikublaðinu hvaða stjórnmálamanni lífs eða liðnum hann hefði mest álit á? “Lenín hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann var traustur foringi, svaraði Lúðvík. Jóhann Hauksson besti blaðamaðurinn. Lenín besti stjórnmálamaðurinn.
Jóhann hefur sem kunnugt er sótt um það hjá fjármálaráðherra að skattgreiðendur greiði framvegis laun til hans fyrir lofgjörðir hans um vinstristjórnina. Helstu aðstandendur DV munu ekki sjá sér það fært mikið lengur. Jóhann þarf ekki að kvíða niðurstöðunni í fjármálaráðuneytinu þótt umsækjendur séu margir. Það er engin ástæða til að ætla annað en að ráðning í embætti blaðafulltrúa ráðuneytisins verði jafn fagleg og ráðning Svavars Gestssonar sem formanns samninganefndar um Icesave.