Helgarsprokið 14. mars 2010

73. tbl. 14. árg.

Þ að kenndi ýmissa grasa í Silfri Egils í dag. Læknir boðaði breytingar á þjóðskrá lýðsveldisins til lausnar á skuldavanda heimilanna. Heimspekiprófessor lagði þjóðaratkvæðagreiðsluna á dögunum að jöfnu við kosningar í eins flokks alræðisríki. Lögfræðingur gerði heldur lítið úr umboðsmanni Alþingis þegar hann hélt því fram að enginn hefði eftirlit með stjórnkerfinu í heild sinni. Að lokum bauð Egill Helgason manni að nafni Alex Jurshevski að tjá sig um skuldir ríkissjóðs Íslands.

Það má gera ráð fyrir því að Jurshevski hefði ekkert á móti því að taka að sér nokkra tíma í útseldri vinnu til að semja við lánadrottna ríkissjóðs. Eins og kom fram í máli hans hefur fyrirtæki hans tekið slík verkefni að sér áður. Sjálfsagt að halda því til haga enda gerði hann glögga grein fyrir þessari stöðu sinni í þættinum.

En Jurshevski spurði margra áleitinna spurninga. Hvaða vitglóra er í því að reyna að bæta nú þegar skelfilega skuldastöðu ríkissjóðs með frekari lántökum? Hver trúir því að svonefnt lánshæfi Íslands batni við aukna skuldsetningu? Er það ekki eins og að stökkva vatni á gæs að ætla sér að verja íslensku krónuna með því að taka að láni gjaldeyrisforða sem er gríðarleg byrði á íslenskum skattgreiðendum en léttvægur sem korktappi á rúmsjó þegar á hólminn er komið á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði?

Og staðreyndin er sú þrátt fyrir allt talið um að allt eigi að vera gagnsætt þá treysta sennilega fáir sér til að lýsa helstu stærðum í skuldasöfnun ríkissjóðs og til hvers í ósköpunum hún er ætluð. Ríkisstjórnin hefur alls ekki kynnt til hvers á að slá öll helstu met í skuldsetningu. Áhugi Vefþjóðviljans á ríkisfjármálum er án efa í góðu meðallagi en engu að síður spurði hann síðast að því í gær i fyrradag í hvað þessi lán eigi að nýta. Það hefur bara engin umræða farið fram um hvort rétt sé að skuldsetja ríkissjóðs með þeim hætti sem norræna velferðarstjórnin hefur unnið svo kappsamlega að undanfarið ár.

Norræna velferðarstjórnin hefur raunar annað ráð við kreppunni en skuldsetningu. Það má að vísu telja öruggt að slík stjórn myndi hækka skatta í nær hvaða tíð sem er en að þessu sinni notar hún kreppuna sem ástæðu til að draga máttinn úr heimilum og fyrirtækjum með skattahækkunum. Svo mætir Jóhanna Sigurðardóttir í Melabúðina og hvetur landsmenn til að versla. Síðast þegar Jóhanna hvatti menn til dáða í fjárfestingum var sumarið 2008 en þá sendi hún fólki skýr skilaboð sem félagsmálaráðherra um að kaupa nú endilega sína fyrstu íbúð. Í því skyni rýmkaði hún veðreglur Íbúðalánasjóðs og aflétti stimpilgjöldum af fyrstu kaupum. Hver að staða þess fólks nú sem fór að ráðum Jóhönnu? Það er ekki víst að það eigi mikið eftir í buddunni til að versla í matvörumörkuðum þegar búið að greiða nýju og hækkuðu skattana. En kannski lagast þetta allt þegar ríkissjóður verður búinn að taka öll erlendu lánin og “við” verðum búin að “standa við skuldbindingar okkar” sem okkur ber engin skylda að lögum til að gera.

Hluti af skuldasöfnun ríkisstjórnarinnar er vegna þjóðnýtingar. Það hefur margt verið þjóðnýtt að undanförnu, ekki síst það sem verst hefur gengið í atvinnulífinu. Því heimskulegri sem uppátæki manna hafa verið því líklegra er að ríkissjóður komi færandi hendi með fjármagn sem hann á þó ekki til. Nú hefur blaðamaður af DV sótt um starf hjá fjármálaráðherra eftir að hafa ritað umsókn um starfið í blaðið sitt nær daglega frá því Steingrímur komst í ráðuneytið. Það væri stílbrot að þjóðnýta ekki starfskrafta mannsins.