Laugardagur 13. mars 2010

72. tbl. 14. árg.

H vaða fjármálafyrirtæki eru það nákvæmlega sem ætla að hafa lokað fyrir öll lán til Íslands þar til Íslendingar hafi undirgengist Icesave-ánauðina? Því hefur verið haldið linnulaust fram undanfarið rúmt ár að það “opnist ekki fyrir erlenda lánsfjármögnun til Íslands” fyrr en ríkissjóður hefur gengist í ábyrgð fyrir stærra láni en hann gæti nokkru sinni endurgreitt félli það á hann að verulegu leyti. Hvaða erlendu einkabankar eru það sem setja það að skilyrði fyrir lánum til fyrirtækja á Íslandi að ríkissjóði verði sökkt í skuldafen?

Það má vel vera að það sé lítill áhugi á því almennt í fjármálaheiminum að lána til Íslands. En að það tengist Icesave með öðrum hætti en þeim að áhugi muni minnka enn frekar ef ríkissjóður verður hlaðinn skuldum er fjarstæða.

Miklu nær væri að líta til þeirra skemmdarverka sem ríkisstjórnin hefur unnið á skattkerfinu að undanförnu. Hækkun og flæking á tekjuskatti einstaklinga, hækkun á tekjuskatti fyrirtækja, hækkun á fjármagnstekjuskatti, hækkun á launaveltuskattinum tryggingagjaldi, hækkun á eldsneytisgjöldum, bifreiðagjöldum og áfengisgjöldum svo eitthvað sem nefnt eykur ekki líkur á að menn vilji leggja fé í íslenskt atvinnulíf.