Þriðjudagur 2. mars 2010

61. tbl. 14. árg.

Í slenskir vinstri menn eru búnir að tæma móðurmálið af neikvæðum lýsingarorðum um þjóðaratkvæðagreiðsluna á laugardaginn kemur. Í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun sagði Valgerður Bjarnadóttir þingmaður Samfylkingarinnar atkvæðagreiðsluna vera „pointless“ . Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa margsagt atkvæðagreiðsluna vera markleysu, skrípaleik og vart nokkra ástæðu til að taka þátt í henni verði atkvæðagreiðslan á annað borð haldin. Það sem stjórnarskráin mælir fyrir um og Alþingi hefur nýverið samþykkt sérstök lög um er bara einhver skrípaleikur þegar svo ber undir.

Þau Jóhanna og Steingrímur hafa undanfarna daga lýst því yfir að betra tilboð til ríkissjóðs – um að greiða óviðkomandi skuldir – liggi nú fyrir frá Bretum og Hollendingum. Hvers vegna eru lögin sem heimila fjármálaráðherra að ganga að verra tilboði þá ekki felld úr gildi tafarlaust? Núverandi fjármálaráðherra er síðasti maðurinn undir sólinni sem ætti að ganga laus með slíka heimild til að ganga að fráleitum kröfum erlendra ríkja. Hann hefur ekki aðeins sýnt það í sjálfu Icesave málinu heldur einnig í málaferlum Impregilio gegn ríkissjóði þar sem hann lagði að þáverandi fjármálaráðherra að koma því máli út úr heiminum með því að senda íslenskum skattgreiðendum reikninginn.

Þessi óvirðing vinstri flokkanna við þjóðaratkvæðagreiðsluna verður þeim mun athyglisverðari fyrir áhersluna sem þeir hafa lagt á slíkar atkvæðagreiðslur í stefnuskrám sínum undanfarna áratugi. Þannig var það einnig fyrir alþingiskosningarnar fyrir 10 mánuðum. Þá vantaði ekki heitstrengingar Samfylkingar og VG um það sem þingmenn flokkanna kalla nú markleysu sem ekki sé ástæða til að taka þátt í.