Mánudagur 1. mars 2010

60. tbl. 14. árg.
Í öðru lagi: Hyggst hæstvirtur ráðherra fara að gera upp þessa skuld, eða hefur hann í hyggju að halda áfram að borga 1 milljón króna á dag í dráttarvexti?
– Alþingi, 28. febrúar 2008. Ævareiður Steingrímur J. Sigfússon krefst þess að íslenska ríkið greiði þegar eins komma tveggja milljarða kröfu Impregilo á hendur ríkinu.

H

Það er sama hvaðan úr veröldinni krafa kemur á ríkissjóð Íslands, Bretlandi, Hollandi, Ítalíu, alltaf skal þessi maður vilja greiða án tafar. Þegar hann sér tækifæri til að fara dýpra ofan í vasa íslenskra skattgreiðenda stenst hann ekki freistinguna.

vað er með Steingrím J. Sigfússon og erlendar kröfur? Fyrir tveimur árum, næstum því upp á dag, voru kröfur ítalska verktakans Impregilo á hendur íslenska ríkinu ræddar á alþingi. Einn þingmaður var stóryrtur og sagði ríkið eiga engan annan kost en að fallast á kröfuna og borga strax. Það yrði dýrara að þráast við. „Það er undarleg hagsmunagæsla herra forseti að velja það frekar að borga eina milljón króna á dag í dráttarvexti en að greiða að minnsta kostni þannig inn á skuldina eitthvað sem ágreiningur er um. Ég efast reyndar um að fjármálaráðuneytið eigi nokkurn annan kost en að gera upp við Impregilo“ bætti Steingrímur við í annarri ræðu um sama mál.

Nú þarf enginn að ímynda sér að Steingrímur J. Sigfússon hafi verið sérstakur velvildarmaður Impregilo, eftir allar deilurnar um Kárahnjúkavirkjun. En þarna var kominn erlendur aðili sem gerði kröfu á Ísland og þá var auðvitað ekki annar kostur en að borga. Annars kæmist málið ekki út úr heiminum.

Í síðistu viku féll dómur í Hæstarétti í innheimtumáli Impregilo sem gekk hefðbundna dómstólaleið þar sem þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, fór ekki að ráðum Steingríms J. Sigfússonar. Íslenska ríkið var sýknað af kröfu Impregilo um endurgreiðslu hinna umdeildu staðgreiðsluskila. Kröfum Impregilo, sem með vöxtum og kostnaði var að öðru leyti vísað frá héraðsdómi en málskostnaður á báðum dómsstigum felldur niður. Kröfur Impregilo, höfuðstóll, dráttarvextir og kostnaður, hefur sennilega ekki verið langt frá tveimur milljörðum króna.

Steingrímur var spurður um þessa niðurstöðu hæstaréttar í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á föstudaginn. Þar sagðist hann fagna niðurstöðunni og hann hefði haft miklar áhyggjur af málinu og meðal annars þráspurt um það á þinginu fyrir tveimur árum. Steingrími láðist alveg að geta þess að hann hefði lagt að fjármálaráðherra að greiða þessar „skuldir“ möglunarlaust í stað þess að láta málið fara sína leið fyrir dómstólum.