Helgarsprokið 28. febrúar 2010

59. tbl. 14. árg.
Fyrsti mikilvægi fótboltaleikurinn sem leikinn var á Spáni fyrir um það bil fimmtán árum leiddi til óviðráðanlegra óspekta. Um leið og sterkar keppnistilfinningar vakna, hverfur alltaf það viðhorf að leika eigi leikinn samkvæmt reglunum. Fólk vill sjá annað liðið hafa betur og hitt niðurlægt, og það gleymir því að sigur sem vinnst með svindli eða afskiptum múgsins er merkingarlaus. Jafnvel þegar áhorfendurnir skipta sér ekki af í verki reyna þeir að hafa áhrif á leikinn með því að hvetja sína menn og slá andstæðingana út af laginu með púi og móðgunum. Íþróttir sem eru stundaðar af alvöru eiga ekkert skylt við sanngjarnan leik. Þær eru rígbundnar hatri, afbrýðissemi, sjálfhælni, lítilsvirðingu fyrir öllum reglum og sadískri ánægju með að sjá ofbeldi: með öðrum orðum eru þær stríð að frátalinni skothríðinni.
– George Orwell, The Sporting Spirit, birt fyrst í Tribune í desember 1945. Íslensk þýðing í Stjórnmál og bókmenntir, bls. 168-169.

G eorge Orwell var með skarpari og framsýnni mönnum sem ritað hafa um stjórnmál, eins og þeir vita sem lesið hafa hans þekktustu verk, 1984 og Dýrabæ. Í Dýrabæ fjallar hann í orði kveðnu um byltingu dýranna og hvernig hún snerist upp í ógn og skelfingu og duldist engum lengi hvert Orwell horfði í raun þegar hann sagði ógnarsöguna af bænum. Í því rúmlega sextíu ára greinarkorni sem hér var vitnað til, fjallar Orwell um andrúmsloftið sem verður oft til þegar keppt er í íþróttum í nafni lands, bæjar eða liðs. Leikurinn tekur að lúta öðrum lögmálum.

Það sem Orwell segir hér um þær sterku keppnistilfinningar sem vaknað geta í sambandi við stóra íþróttaleiki, á það ekki að sínu leyti við eitt og annað sem gerst hefur á Íslandi á síðustu misserum? Hafa þar ekki vaknað heitar tilfinningar og verið haldið við síðan? Hefur ekki vaknað löngun til að ná fram niðurlægingu og ósigri einhverra sem skilgreindir eru sem óvinir og á hún ekki töluvert undir högg að sækja, krafan um að leikið sé eftir reglunum?

Þeir sem nú um stundir stýra opinberri umræðu, og heimta rannsóknir og réttlæti í öðru hverju orði, hver er virðing þeirra sjálfra fyrir lögum og rétti? Finnst þeim í raun einhverju skipta hvaða réttur gildir í landinu, svo lengi sem þeir sjálfir fái vilja sínum framgengt? Hvernig væri að taka nokkur dæmi úr íslenskum samtíma?

Fyrr í vetur gerðist það að lánabók íslensks banka var lekið á netið. Bankinn taldi það, og birtingu upplýsinganna vera lögbrot, og krafðist lögbanns á birtinguna. Sýslumaður féllst á kröfuna. Fréttastofa Ríkisútvarpsins fór í mikla áróðursherferð gegn þeirri ákvörðun sýslumanns og álitsgjafar fóru hamförum. Allskyns frösum var beitt, en lögfræðilegum rökum yfirleitt aldrei í hinni opinberu umræðu. Þó hefði hún fyrst og fremst átt að snúast um þau: Voru upplýsingarnar réttar og löglega fengnar? Var, samkvæmt lögum, heimilt eða óheimilt að birta þær opinberlega? Þetta eru lykilatriði og eiga að ráða niðurstöðunni. En í staðinn fyrir að um þetta væri fjallað, þá virtust álitsgjafar og fréttamenn stýrast af spurningunum: Vil ég að þetta verði birt? Vil ég fá þessar upplýsingar? Tel Ég að þær eigi erindi við fólk?

Í vetur sendi Lögmannafélagið frá sér ályktun og varaði við þeirri tilhneigingu sem það taldi sig hafa orðið vart við, frá „svokölluðu hruni“, að vegið væri að réttarríkinu með ýmsum aðgerðum. Margir réðust á Lögmannafélagið fyrir að tala um „svokallað hrun“, en færðu ekkert fram í umræðuna um það hvort grafið væri undan réttarríkinu.

Ríkisútvarpið er áhrifamikill fjölmiðill enda í einstakri stöðu. Fær nauðungargjöld frá hverjum manni og lögaðila og þar að auki stórfelld framlög frá ríkinu til að mæta samfelldum hallarekstri. Þannig hefur stofnunin verið rekin í áttatíu ár og við það er ákaflega erfitt að keppa. Eykur það skyldur starfsmanna Ríkisútvarpsins til að ganga fram af fyllstu hófsemd og hlutleysi. Þeir verða að gæta þess vel að áhorfendur og hlustendur hafi enga ástæðu til að efast um hlutleysi starfsmanna þessarar stofnunar sinnar. Þrátt fyrir þetta eru fréttamenn iðulega mjög hlutdrægir í störfum sínum, eins og fjölmörg dæmi hafa verið nefnd um í þessu blaði. Og dagskrárgerðarmenn sumir beita sér eins og þeir eigi stofnunina. Sumir þáttastjórnendur í útvarpi og sjónvarpi hika ekki við að fylla þætti sína af skoðanabræðrum sínum aftur og aftur, og fjalla jafnvel í þáttunum um málefni sem þeir hafa áður, á öðrum vettvangi, tjáð sig um með stórum orðum. Þeir eru einfaldlega sjálfir í herferð og telja sig eflaust berjast fyrir bættu þjóðfélagi. Kannski hafa sumir þeirra rétt fyrir sér um ýmsa hluti. En þeir mega samt ekki missa tilfinninguna fyrir því að leika eigi eftir réttum reglum. Hlutleysisreglur Ríkisútvarpsins takmarka einfaldlega frelsi fréttamanna og þáttastjórnenda, hvort sem þeim finnst þeir hafa góðan málstað eða ekki.

Virðing fyrir reglum þverr á ótal sviðum, þegar hentugleikarnir virðast verða lögunum yfirsterkari. Lítið dæmi er höfundaréttur, sem nýtur minnkandi velþóknunar en lög gilda samt um, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Sumir hika ekki við að taka greinar, sem birst hafa annars staðar og þeim líkar vel, og birta í eigin miðlum í heild, rétt eins og engar reglur séu um höfundarétt eða útgáfurétt. Aðrir taka heilu myndskeiðin úr sjónvarpi, jafnvel heila þætti eða kvikmyndir, og birta á vefsíðum sínum, eins og höfundalögin gildi ekki um þá. Eflaust telja slíkir menn sig vera í mikilli baráttu fyrir betra þjóðfélagi, en þeir mega ekki gleyma að þá baráttu þarf að leika eftir þeim reglum sem eru í gildi. Sá sem telur sjálfan sig ekki þurfa að fara eftir þeim lögum sem honum þykja úrelt, hjákátleg eða truflandi, hversu trúverðugur er hann þegar hann hamast gegn því sem hann segir lögbrot annarra?

Dæmi sem þessu eru nær endalaus og um stór atriði og smá. Fleiri og fleiri virðast einfaldlega vilja fara sínu fram og gera ekkert með gildandi lög og rétt. Forseti Íslands myndar minnihlutastjórn án þess einu sinni að reyna myndun meirihlutastjórnar, eins og starfandi forsætisráðherra hafði þó lagt til og stjórnskipunarvenjurnar bjóða að sjálfsögðu. Fjölmiðlar gera enga athugasemd. Sett voru lög sérstaklega til að koma tilteknum embættismönnum úr starfi og í þeirra stað settur erlendur ríkisborgari þó stjórnarskráin leyfi það augljóslega ekki. Í leiðara Morgunblaðsins var látin í ljós sú von að menn færu ekki að hengja sig í lagakróka, þegar bent var á að stjórnarskráin væri brotin. Nýr viðskiptaráðherra var jafnframt stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins þegar hann tók við embætti. Hann tilkynnti að hann færi í leyfi meðan hann gegndi ráðherraembættinu. Enginn fjölmiðill nema lítið vefrit vildi vita hvernig menn færu í slíkt leyfi og enn síður hver hefði veitt honum leyfið, úr því leyfið var veitt frá starfi í nefnd, sem heyrði undir viðskiptaráðherrann, hann sjálfan.

Þeir sem hafa orð á sjónarmiðum eins og þessum fá þögn eða skammir. Sjaldnast rökræðu. Nú er nefnilega verið að byggja upp „nýtt Ísland“ og þá varðar menn ekkert um réttarríkið. Þá er ekki alltaf mikill áhugi á að „leika leikinn samkvæmt reglunum“ og gleymist oft að „sigur sem vinnst með svindli eða afskiptum múgsins er merkingarlaus“. Fáir eru óskeikulir en George Orwell vissi oft hvað hann söng.