S kemmtilegt hvernig nokkur orð og hugtök hafa alveg horfið úr opinberri umræðu á síðustu vikum. Nú tala fréttamenn og álitsgjafar ekki um „málskotsrétt“ og ekki um að forseti Íslands hafi „vísað lögum til þjóðarinnar“. Nú nefnilega vill Samfylkingin, og þar með ríkisstjórnin, fréttamenn og álitsgjafar, ekki að allsherjaratkvæðagreiðsla fari fram um Icesave-lögin. Samfylkingin, og þar með ríkisstjórnin, fréttamenn og álitsgjafar, hafa nú í nokkrar vikur leitað allra leiða til að komast hjá því að atkvæðagreiðslan fari fram, og þar með hvarf „málskotsrétturinn“ úr allri umræðu. Siðan þetta varð ljóst hafa fréttamenn og álitsgjafar látið sér nægja að segja að forsetinn hafi synjað lögunum staðfestingar, en frasinn um að lögunum hafi verið „vísað til þjóðarinnar“ heyrðist ekki framar. Sem er auðvitað ágætt, því forseti hefur synjunarvald en ekki „málskotsrétt“, og það vald er eins og annað vald forseta í höndum ráðherra.
Líklega tekst Samfylkingunni þó ekki að koma í veg fyrir að kosningin fari fram. Þess í stað reyna ráðherrar, álitsgjafar og fjölmiðlamenn því að tala sem mest um að kosningin skipti engu máli. Komið sé fram „betra tilboð“ og því sé ekki um neitt að kjósa.
Sá málflutningur er auðvitað út í hött. Lögin gilda ennþá. Ríkisstjórnin gæti hvenær sem er haft forgöngu um að fella þau úr gildi. Það gerir ríkisstjórnin ekki. Hún telur lögin því greinilega hafa þýðingu ennþá. Ef það væri í raun svo að „betra tilboð“ væri svo fast í hendi að núverandi lög væru, að mati ríkisstjórnarinnar óþörf, þá mætti hæglega afnema þau. En það er ekki nefnt og segir það meira en mörg orð.