Mánudagur 22. febrúar 2010

53. tbl. 14. árg.

Þ að er kannski ekki svo slæmt hlutfall að af þrjúhundruð þúsund manna þjóð séu það aðeins tveir menn sem hvorki sjá né skilja að staða Íslands, við að verjast ofstækisfullum kröfum Breta og Hollendinga, getur ekki annað en batnað við að fram fari allsherjaratkvæðagreiðsla þar sem frumvarpi ríkisstjórnarinnar verði hafnað með yfirburðum.

Þegar það hefur verið gert munu Bretar og Hollendingar sjá að ekki er lengur við uppgjafarríkisstjórn að tefla heldur hafa landsmenn sett hnefann í borðið. Þetta sjá allir Íslendingar nema tveir. Það er ágætt hlutfall. Það sem er hins vegar vont, er að þessir tveir eru Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem halda áfram að halda bæði tilraunum ríkisstjórnarinnar til að koma Íslandi undir Icesave-ánauðina, og ríkisstjórninni sjálfri, á lífi.

Allir nema þeir sjá að það er gersamlega fráleitt af þeim að standa í viðræðum við nokkurn einasta fulltrúa hins þríhöfða Icesave-ánauðarþurs, ríkisstjórna Bretlands, Íslands og Hollands. Allir nema þeir skilja að Ísland getur ekki tapað á því að hafna Icesave-ánauðinni í atkvæðagreiðslu þann 6. mars. Getur ekki einhver þessara tvöhundruð níutíu og níu þúsund níu hundruð níutíu og átta sagt þeim þetta? Getur ekki einhver, bara einhver, beðið þá um að hætta þessum fundahöldum með ríkisstjórnum þessara þriggja landa, þessum einu þremur ríkisstjórnum heimsins sem hafa fullan skilning á málstað andstæðinga Íslands en engan skilning á málstað Íslands?