Helgarsprokið 21. febrúar 2010

52. tbl. 14. árg.

S ú röksemd sem ánauðarsinnar hafa einna helst beitt fyrir sig í Icesave málinu er að íslensk yfirvöld hafi haft „eftirlitsskyldu“ með íslensku bönkunum – og eftirlitið hafi brugðist. Vegna þessarar skyldu beri íslenskum skattgreiðendum að bæta allt hugsanlegt tap sem viðskiptavinir bankanna hafi orðið fyrir.

Það er óvíst hvar röksemdafærsla af þessu tagi endar. Ríki og sveitarfélög hafa margvíslegt eftirlit með öllu milli himins og jarðar. Raunar eru himinn og jörð meðtalin. Ragnar Stefánsson prófessor í jarðvárfræðum og fleira fólk fylgist fyrir hönd ríkisins með hræringum í neðra. Stór hópur veðurfræðinga ríkisins reynir að geta sér til um hvenær næsta lægð fer inn fyrir 200 mílurnar og hvar og hvernig hún lemur landssteinana. Ber íslenska ríkið þar með ábyrgð á öllum veðurskaða og tjóni af jarðaskjálfta sem starfsmenn þess sjá ekki nægilega fyrir um? Tjaldið okkar fór á flot í Þórsmörk í nótt, bar ekki Veðurstofunni að benda betur á hættuna á því?

„…sömu mennirnir og telja að „eftirlitsskylda“ hins opinbera baki skattgreiðendum ábyrgð á starfsemi fjármálafyrirtækja vilja víst endilega að eftirlitið verði aukið og hert til muna. Ef það verður nú gert og þau skilaboð send út að ríkið vomi yfir hverju smáatriði í rekstri bankanna hver verður þá staða skattgreiðenda? Eru þeir þá ekki komnir með ótakmarkaða ábyrgð á öllu því sem miður fer í slíkum rekstri?“

Lögreglan sinnir umferðaeftirliti á vegum ríkisins. Bera skattgreiðendum þá einhver konar ábyrgð á umferðarslysum?

Fyrir nokkrum árum tóku sveitarstjórnarmenn eftir því að frá landnámi hafði heimiliskötturinn farið sínar leiðir án nokkurra reglna, eftirlits, skráningar, umhverfismats, leyfisskyldu eða gjaldtöku. Úr því var snarlega bætt og nú geta starfsmenn sveitarfélaga jafnvel skannað örmerki sem grædd eru í kettina. Eru útsvarsgreiðendur í Reykjavík þar með komnir með einhvers konar sjálfskuldarábyrgð fyrir hugsanlegum ama sem menn geta haft að köttum með örflögu í hryggnum frá „skrifstofu neyslu og úrgangs“ á „umhverfissviði“ borgarinnar?

Það undarlega er svo að sömu mennirnir og telja að „eftirlitsskylda“ hins opinbera baki skattgreiðendum ábyrgð á starfsemi fjármálafyrirtækja vilja víst endilega að eftirlitið verði aukið og hert til muna. Ef það verður nú gert og þau skilaboð send út að ríkið vomi yfir hverju smáatriði í rekstri bankanna hver verður þá staða skattgreiðenda? Eru þeir þá ekki komnir með ótakmarkaða ábyrgð á öllu því sem miður fer í slíkum rekstri?

Væri þá ekki bara hreinlegra að taka gamla ríkisreksturinn upp að nýju?

Þrátt fyrir öll áköllin um opinbert eftirlit mega menn ekki líta framhjá því að þegar það er til staðar slævir það ábyrgðartilfinningu þeirra sem eiga í viðskiptum. Ef því er svo bætt við að þar sem ríkið sé með eftirlit beri það alla ábyrgð á því sem miður kann að fara er deginum ljósara að ábyrgðartilfinningin hverfur að mestu.

Þrátt fyrir allt er hægt að læra af Icesave málinu og bankakrísunni. Það sýnir svo ekki verður um villst að ekki hafði tekist að skilja nema að litlu leyti á milli bankanna og ríkisvaldsins. Einkabankar gátu og geta enn stofnað til ótrúlegra skulda í seðlabönkum ríkja. Ríkisvaldið setur reglur um innstæðutryggingar og hefur afskipti af tryggingasjóðnum. Fjármálaeftirlit ríkisins gefur bönkunum gæðastimpil og getur ekki annað því annars myndu bankarnir glata trausti. Í hvert sinn sem banki ratar í veruleg vandræði koma stjórnmálamenn hlaupandi með björgunarpakka á kostnað skattgreiðenda.

En þótt það megi læra af þessu er rétt að vekja athygli á því að allt þetta samkrull ríkisvaldsins og bankanna á að halda áfram þrátt fyrir hremmingar síðustu missera.