Laugardagur 20. febrúar 2010

51. tbl. 14. árg.

Í gær var greint frá því að forsvarsmenn íþróttafélags í Kópavogi vildu að Kópavogsbúar í öllum flokkum gengju í Sjálfstæðisflokkinn, kysu gegn Gunnari I. Birgissyni í prófkjöri, og segðu sig svo úr flokknum. Þetta skyldi gert í hefndarskyni fyrir að Gunnar vildi ekki lofa stórfelldum útgjöldum vegna enn nýrrar aðstöðu íþróttafélagsins.

Ætli frjálslynt fólk í Kópavogi geti fengið betri leiðbeiningar en þetta?

F rá því var skýrt í vikunni að tveir menn, sem nefndust Erpur og Móri, hefðu deilt um það lengi á opinberum vettvangi, hvor þeirra hefði byrjað fyrr að rappa. Því miður hafði þessi deila um keisarans rapp farið fram hjá Vefþjóðviljanum, en annars hefði blaðinu verið ánægja að koma að lausn málsins. Nú er hins vegar hermt að deilur þessara manna hafi magnast svo, að annar beiti nú hnífi og gömlum hundi í viðræðum þeirra, en hinn svari með gólfmoppu svo ótt að nærstöddum virðist sem sjö gólfmoppur séu á lofti í einu.

Augljóslega er alvarlegt mál að þessir menn eyði dýrmætum tíma frá list sinni í deilur af þessu tagi. Hér þurfa allir að leggjast á árar svo deilunum ljúki sem fyrst. Því leggur Vefþjóðviljinn til að Hjálparsveit stráka, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, gangi inn í deiluna, taki á sig ábyrgð á málinu og skeri rapparana tvo niður úr snörunni. Það hafa þeir þegar gert í annarri deilu, sem annars hefði orðið þátttakendum skeinuhætt og þar óbeðnir tekið á sig og flokka sína ábyrgð á því að leiða hana til lykta svo fyrri deilendur sitji ekki uppi með hana einir.

Icesave-ánauðin var komin í slíkt öngstræti að fyrirséð var að lögum um hana yrði hafnað með slíkum yfirburðum að allar tilraunir bresku, hollensku og íslensku ríkisstjórnanna til að leggja ánauðina á íslenskan almenning rynnu út í sandinn. Hefði það orðið til þess að Íslendingar hefðu ekki þurft að greiða stórfelldar skuldir sem þeim koma ekkert við, og núverandi ríkisstjórn hefði sennilega fjarað út eins og frostavetur sem víkur fyrir vori.

En þá birtist Hjálparsveit stráka og hafði ótilneydd forystu um að efnt yrði til nýrra viðræðna þar sem því skyldi í upphafi lofað að stjórnarandstaðan myndi ekki beita sér gegn niðurstöðunni og almennir kjósendur yrðu einskis spurðir.

Það er mikið böl fyrir þau Steingrím og Jóhönnu að þurfa á svo viðkvæmum tíma að glíma við refi eins og þá í hjálparsveitinni. Tvo útsmogna menn, báða með margra mánaða pólitíska reynslu, sem aldrei láta plata sig. Óreyndir menn hefðu sjálfsagt bara beðið rólegir, látið atkvæðagreiðsluna fara fram og verið eftir hana einbeittir í að samþykkja ekki að íslenskir skattgreiðendur borguðu skuldir sem þeim koma ekkert við. En ekki Hjálparsveitin. Hún flýgur um allt á fundi undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar og talar alvörugefin og ábúðarmikil við blaðamenn þess á milli, rétt eins og forysta Framsóknarflokksins gerði með góðum árangri í lok janúar í fyrra.