Föstudagur 19. febrúar 2010

50. tbl. 14. árg.

Í vikunni varð furðuleg uppákoma á borgarstjórnarfundi. Hermann Valsson, sem sat fundinn sem fulltrúi vinstrigrænna, leyfði sér að greiða atkvæði eftir eigin sannfæringu um smávægilega tillögu sem þá var til afgreiðslu. Hermann sagði nei. Sóley Tómasdóttir sem einnig sat fundinn fyrir vinstri græna hrópaði þá yfir borgarstjórnarsalinn að Hermann sæti hjá. Var þá atkvæðagreiðslan endurtekin og aftur sagði Hermann sjálfur nei, en Sóley æpti að Hermann sæti hjá. Forseti taldi þá atkvæði Hermanns eftir því sem Hermann sagði sjálfur en óháð ópum Sóleyjar Tómasdóttur.

Þetta atvik sýnir að Sóley verður að undirbúa borgarstjórnarfundina mun betur. Næst væri eðlilegast að hún sendi Silju Báru Ómarsdóttur heim til annarra borgarfulltrúa, í tæka tíð fyrir hvern fund, og Silja Bára kæmi svo með atkvæði þeirra útfyllt og fín til Sóleyjar sem myndi skila þeim inn til talningar. Ef Silja Bára myndi nota handfrjálsan búnað þá þyrfti hún ekki einu sinni að taka sér frí frá álitsgjöf í Ríkisútvarpinu á keyrslunni, heldur gæti malað á leiðinni.