Fimmtudagur 18. febrúar 2010

49. tbl. 14. árg.

Í fyrradag var Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra spurð á alþingi um grein, sem annar fulltrúa forsætisráðherra í „peningastefnunefnd Seðlabankans“ hafði skrifað á erlendum vettvangi, þar sem því var haldið fram að vel mætti ná miklum fjárfúlgum út úr Íslendingum í Icesave-deilunni. Jóhanna var spurð hvort hún teldi greinina ekki stórskaðlega hagsmunum Íslands og hvort hún vildi nú ekki víkja fulltrúanum úr „peningastefnunefndinni“, svo fleiri slíkar greinar myndu nú ekki birtast erlendis í nafni fulltrúa þar.

Jóhanna tók undir það, að væri endursögnin á grein fulltrúans rétt, þá væri hún mjög skaðleg fyrir Ísland. En í næsta orði neitaði hún alfarið að víkja henni úr nefndinni. Og hvers vegna? Jú af því að Seðlabankinn væri sjálfstæður og í því fælist að forsætisráðherra mætti ekki skipta sér af því hverjir færu með æðstu stjórn hans.

Og enginn sagði neitt. Stjórnarandstaðan auðvitað ekki, enda bjuggust fáir við lífsmarki þaðan. Fréttamenn auðvitað ekki, þó eitt helsta hjartans mál margra þeirra hafi á síðasta ári verið aðför sama forsætisráðherra að bankastjórum Seðlabankans. Fyrsta verk Jóhönnu sem forsætisráðherra var skrifa þeim bréf og krefjast afsagnar þeirra og fréttamenn fylgdu málinu eftir, svo sem þeir mest gátu. Þegar kröfurnar báru ekki þann árangur sem Jóhanna vildi þá var lagabreyting knúin í gegnum þingið með slíkum látum að þingstörf voru felld niður ef töf virtist ætla að verða á málinu.

Núna segir enginn neitt þegar sami forsætisráðherra vill ekkert gera með þann fulltrúa sem hún hefur sjálf skipað í nefnd, og ber fyrir sig sjálfstæði æðstu stjórnar Seðlabankans. Ekki orð.

Svona er íslensk þjóðmálaumræða.