Miðvikudagur 17. febrúar 2010

48. tbl. 14. árg.

Á rsreikningar margra fyrirtækja eru góð lesning fyrir svefninn. Þannig er nýútkominn ársreikningur RARIK ohf. fyrir árið 2009. Á síðu 21 er gerð grein fyrir tekjuskatti félagsins og þar kemur fram að virkur tekjuskattur fyrirtækisins er 170,8%. Aðeins.

Sem kunnugt er hækkaði ríkisstjórnin tekjuskatt fyrirtækja í byrjun árs úr 15% í 18% því hún lofaði ekki aðeins gjaldborg um heimilin heldur einnig skattborg um atvinnulífið.

Þessi mikla hækkun á tekjuskatti fyrirtækja – skatthlutfallið hækkað um fimmtung – hefur í för með sér óvænt bókhaldsleg tíðindi í ársreikningum margra fyrirtækja. Þau þurfa að reikna tekjuskattsskuldbindingar sínar upp miðað við skattahækkunina og gjaldfæra uppreikninginn. Jafnvel fyrirtæki sem skila tapi – fyrir tekjuskatt – á síðasta ári verða að gjaldfæra tekjuskattsskuldbindingar upp á ógurlegar fjárhæðir.

Allt er þetta í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem sem staðfestir hafa verið af sjálfu Evrópusambandinu. Þessir sem leystu almenna skynsemi af hólmi fyrir nokkrum árum.