Þriðjudagur 16. febrúar 2010

47. tbl. 14. árg.

S tundum kemur það fyrir að dagblöðin birta stuttar aðsendar greinar þar sem aðalatriði máls eru dregin fram með, kjarninn skilinn frá hisminu. Ein slík birtist í Fréttablaðinu í dag eftir Sigurð Líndal lagaprófessor. Þar fer Sigurður yfir allt sem máli skiptir í Icesave málinu. Hann er að svara grein eftir Kristin H. Gunnarsson fyrrverandi alþingismann sem hefur að undanförnu verið að skrifa sig heim í vinstri flokkana.

Hér er fullyrt að íslenzk stjórnvöld hafi viðurkennt ríkisábyrgð á lágmarkstryggingu innistæðna Icesave-reikninga.

Ef þau firn eiga að ganga yfir ríki og þjóð að bera fjárhagslega ábyrgð á gerðum einstaklinga sem flestir eru sammála um að sé mjög þungbær og aðrir telja að hæglega geti orðið þjóðinni um megn, verða að vera skýr ákvæði í lögum eða ótvíræðar yfirlýsingar fulltrúa hennar gagnvart öðrum þjóðum sem til þess hafa löglega heimild.

Enn sem komið er hefur enginn bent á skýran lagastað fyrir slíkri ábyrgð, hvorki talsmenn Evrópusambandsins, Evrópuþingsins né Norðmanna. Hafi það verið gert hefur því ekki verið haldið á lofti. En þegar lagastaði skortir hefur umræðan beinzt að yfirlýsingum íslenzkra stjórnvalda og á það leggur Kristinn áherzlu í tilvitnuðum texta sem mætti þó vera betur rökstuddur. Nú er komið að honum að bæta úr og tilgreina nákvæmlega og undandráttarlaust yfirlýsingar íslenzkra stjórnvalda sem skuldbinda íslenzka ríkið til að takast á hendur umrædda ábyrgð og í hvaða samhengi þær hafi verið gefnar.

Jafnframt verður að minna á að ekki verður tekið lán er skuldbindi ríkið nema samkvæmt lagaheimild og þar undir fellur ríkisábyrgð, sbr. 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta þarf Kristinn að hafa í huga þegar hann leggur fram yfirlýsingarnar.

Einnig verður hann að hafa í huga að yfirlýsingar sem gefnar eru í tengslum við samningaferli eru ekki bindandi ef samningar takast ekki, svo sem ef upp úr slitnar, ef Alþingi hafnar eða er í óvissu við synjun forseta. Ég vona að Kristinn svari hér undanbragðalaust.

Hitt er annað mál að vel má vera að eftirlitskerfi hér á landi hafi brugðizt, og því kunni að fylgja bótaskylda. En eins og margsinnis hefur verið bent á eiga þar aðrir einnig hlut að máli, Hollendingar, Bretar og Evrópusambandið. En álitamál sem að þessu lúta koma sérstökum skuldbindandi ábyrgðaryfirlýsingum ekkert við.

Mikið einfaldara getur það ekki verið. Enginn lagastaður er fyrir ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninga. Ríkið hefur ekki undirgengist lánaábyrgð vegna uppgjör Breta og Hollendinga við innistæðueigendur.

Það er ekkert sem bendir til að ríkissjóður Íslands eigi að hlaupa undir bagga varðandi þetta viðskiptaævintýri einkaaðila. Engu að síður sendir ríkisstjórn Íslands nú samninganefnd í þriðja sinn til fundar við bresk og hollensk stjórnvöld þar sem látið er eins og íslenskir skattgreiðendur beri alla ábyrgð á málinu og það eina sem þurfi að semja um sé hve háa dráttarvexti Íslendingar eigi að greiða af fjármunum sem bresk og hollensk stjórnvöld greiddu þegnum sínum í óðagoti haustið 2008.

Og það þarf vart að taka það fram að Steingrímur J. Sigfússon er ekki bjartsýnn fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda.