Mánudagur 15. febrúar 2010

46. tbl. 14. árg.

U ngmennafélag Íslands auglýsti um helgina eftir „umsóknum frá sambandsaðilum og sveitarstjórnum um að taka að sér undirbúning og framkvæmd 15. Unglingalandsmóts UMFÍ“ sem haldið yrði árið 2012. Í auglýsingunni segir að unglingalandsmótin hafi „verið mikil lyftistöng fyrir bæjarfélögin þar sem þau hafa verið haldin. Öflug uppbygging íþróttamannvirkja og aðstöðu hefur jafnan fylgt mótunum.“

Þessi auglýsing er mikil ósvífni. Forkólfar íþróttafélaganna hafa beitt landsmótunum eins og svipu á ístöðulitla sveitarstjórnarmenn til að heimta ótrúlegar framkvæmdir og fjárútlát til að „uppfylla kröfur landsmótsins.“ Lítið bæjarfélag eins og Þorlákshöfn eyddi til dæmis milljarði króna í aðstöðu vegna unglingalandsmóts sem þar var haldin eina helgi fyrir tæpum tveimur árum. Íþróttaforkólfarnir dreifa mótunum skipulega um landið og leggjast svo á sveitarstjórnarmenn og heimta nýja aðstöðu fyrir milljarða. Útsvar er svo í hæstu hæðum og sveitarfélögin stórskuldug.

F ram kom í breska blaðinu The Sunday Times um helgina að handritshöfundar hins vinsæla sjónvarpsþáttar, Doctor Who, hefðu vitandi vits haft það sem markmið sitt að grafa undan Margréti Thatcher, forsætisráðherra og leiðtoga íhaldsmanna, og koma henni frá völdum. Þetta er nú viðurkennt, rúmlega tuttugu árum síðar, og þykir hið versta mál, enda fullkomin misnotkun á aðstöðu.

Víðar en í Bretlandi gerist það all oft, að menn sem komast í þá aðstöðu, að fá rúman aðgang að sjónvarpsskjáum eða útvarpstækjum landa sinna, nýta sér aðstöðuna í þágu persónulegra sjónarmiða. Stundum er reynt að gera það svo lítið beri á, og slagsíðan opinberast ekki nema lengri tími sé skoðaður. Þannig er til dæmis í eðli skopmyndar að einhver er sýndur í skoplegu ljósi og enginn gerir kröfu um að hver og ein skopmynd sé „hlutlaus“. En ef augljós slagsíða verður á skopmyndum yfir langan tíma, þannig að fólki þykir blasa við að persónuleg viðhorf teiknarans ráði því hvaða málstaður lendi sífellt í skoplegu ljósi og hvaða málstað sé að mestu hlíft, þá minnkar ánægjan af jafnvel prýðilegum teikningum.

Mun verra er þó, þegar fréttamenn taka að láta undan skoðunum sínum, þegar kemur að fréttaskrifum og fréttamati. Þá blasir við að sumir þáttastjórnendur ríkisfjölmiðilsins hika ekki við að nota þætti sína í baráttu fyrir sínum persónulegu skoðunum og virðast hafa til þess frjálsar hendur. Leyfa þeir sér sumir að tjá sig af mikilli hörku um einstaklinga og stjórnmálaflokka á einum vettvangi og hika svo ekki við að stjórna umræðum um sömu einstaklinga og flokka í útvarpi eða sjónvarpi. Slíkt er auðvitað óframbærilegt í ríkisfjölmiðli. Öðru máli gegnir hins vegar um einkarekna fjölmiðla, svo sem sjónvarpsstöð Ingva Hrafns Jónssonar, þar sem gamlir og nýir baráttumenn stjórna gjarnan þáttum og ræða við þá sem þeir vilja um hugðarefni sín. Slíkir þættir eru tilvaldir á sjónvarpsstöð eins og Ingva Hrafns Jónssonar, og geta þar verið hinir fróðlegustu, en kæmu ekki til greina í ríkisfjölmiðli fyrr en langt væri liðið frá því umsjónarmaðurinn hefði síðast tekið þátt í opinberum skylmingum.

En auðvitað ætti Vefþjóðviljinn ekki að kvarta. Hvaða röksemd gegn opinberu útvarpi og sjónvarpi er betri en linnulítil notkun þess í þágu sjónarmiða einstakra fréttamanna og annarra starfsmanna?