Þriðjudagur 23. febrúar 2010

54. tbl. 14. árg.

S em von er kemur smátt og smátt í ljós að svonefnd loftslagsfræði voru ekki fullsköpuð á fyrsta degi. Hrakspár ganga ekki eftir, skýrslur vísindamanna og skrif þeirra í fræðirit eru dregin til baka og vísindamenn eru jafnvel staðnir að tilraunum til að koma í veg fyrir að gögn nýtist þeim sem eru skoða málin af öðrum sjónarhóli.

Það er auðvitað mörgum spurningum ósvarað um áhrif mannsins á loftslag jarðar og ýmislegt því samhangandi líkt og yfirborðsstöðu sjávar og þykkt jökla. Þeir þættir sem hafa áhrif á loftslag á jörðinni eru óteljandi og hafa fæstir verið fullkannaðir.

John R. Christy prófessor er einn þeirra sem um árabil hefur kvartað undan því að kollegar hans mætti þessu flókna vísindalega álitaefni af nægilegri auðmýkt. Í grein sem hann ritaði í The Wall Street Journal árið 2007 sagði hann til að mynda:

Við erum þó enn nokkur sem erum auðmjúk gagnvart því viðfangsefni að mæla og meta hið ótrúlega flókna kerfi sem loftslagið er. Við teljum okkur ekki geta fullyrt með vissu hvað kerfið er að gera og hvers vegna.

 Móðir náttúra er flóknari en svo að við dauðlegir menn (til dæmis vísindamenn) og sú tækni sem við höfum yfir að ráða getum kortlagt hana til hlítar.

Með hagnýtingu raunvísinda hefur maðurinn náð ótrúlegum árangri. Það er því ef til vill ekki að undra þótt menn ofmetnist og telji sig geta svarað hvaða spurningu sem er. Þessi oftrú á aðferðum raunvísindanna er ekki aðeins vandamál innan þeirra. F.A. Hayek skrifaði heila bók The Counter-Revolution of Science fyrir 60 árum um þá öfugþróun sem varð þegar menn töldu hægt að væri að nota aðferðir raunvísindanna til að skoða og skipuleggja þjóðfélög.