Mánudagur 8. febrúar 2010

39. tbl. 14. árg.

Þ rjátíu ár eru í dag síðan mynduð var vinstristjórn Alþýðubandalags, Framsóknarflokks og nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokks, undir forsæti Gunnars Thoroddsens. Undir henni náðist það merka markmið að verðbólga í landinu varð meiri en 100% og héldu menn lengi að þetta yrði versta vinstristjórn sem landið hefði þurft að þola, og var þar þó af mörgu að taka. En í þeim efnum átti hún þó eftir að fá óvægna samkeppni, raunar svo að allur samanburður verður þýðingarlaus.

Vinstristjórnirnar sem á undan höfðu setið, höfðu auðvitað átt sínar stundir. Í upphafi áttunda áratugarins sat ein, sem hafði það að helsta markmiði að reka varnarliðið úr landi og lýsa landið varnarlaust. Hefði sú fyrirætlun sjálfsagt tekist, ef ekki hefði komið til umfangsmesta undirskriftasöfnun sem þá hafði nokkurn tíma farið fram á Íslandi, undirskriftasöfnun Varins lands. Saga þeirrar söfnunar er að nokkru sögð í sumarhefti tímaritsins Þjóðmála árið 2008, og má mæla með þeirri frásögn. Annað sem sú vinstristjórn kom að, var sameining Flugfélags Íslands og Loftleiða, en um það mál er vitaskuld fjallað í kvikmyndinni um sögu Loftleiða og Alfreðs Elíassonar sem Ríkissjónvarpið sýnir í nokkrum hlutum um þessar mundir.

Sú mynd er skemmtileg og fróðleg og hefur hlotið töluvert lof. Ýmsir álitsgjafar hafa verið hrifnir og sérstaklega nefnt að Loftleiðir hafi verið knúnar til ósanngjarnrar sameiningar vegna ýmissa annarlegra hagsmuna, og hefur þeirri staðhæfingu stundum verið fylgt eftir með nokkrum orðum um spillingu og svo framvegis. Flestir þessara álitsgjafa hafa, af einhverjum ástæðum, látið hjá líða að nefna að sameiningin varð á valdatíma vinstristjórnar Alþýðubandalags, Framsóknarflokks og Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna, þó þeir tali sumir í mörgum orðum um að stjórnvöld hafi knúið á um sameininguna.

Menn geta svo velt fyrir sér hvort jafn oft hefði gleymst að taka fram, hverjir hefðu setið í ríkisstjórn, ef það hefðu verið einhverjir aðrir.

Hin fróðlega og skemmtilega kvikmynd er byggð á ævisögu Alfreðs Elíassonar, sem Jakob F. Ásgeirsson skráði. Sú bók var fyrir löngu uppseld en var endurútgefin í fyrra í tilefni af sýningu kvikmyndarinnar. Bókin fæst nú í Bóksölu Andríkis og kostar þar 2.990 krónur og er heimsending innanlands innifalin í verðinu. Við sendingar úr landi með Flugleiðavél bætist við 600 króna sendingargjald.