Ó hjákvæmilegt er að skera opinber útgjöld verulega niður og mun meira en stjórnvöld, að ekki sé minnst á stjórnarandstöðuna, þora. Ætti það að vera fremur auðvelt, enda hafa opinber útgjöld verið aukin mjög verulega á allra síðustu árum. Niðurskurðurinn kæmi því í framhaldi af mikilli útgjaldaaukningu en ekki eftir margra ára niðurskurð og sparsemi.
En þá sjaldan sem ríkisstjórnarflokkarnir láta sér detta niðurskurð í hug, þá er bregst stjórnarandstaðan stundum. Þannig virtust stjórnarflokkarnir ætla að skera svolítið niður hin gríðarlegu útgjöld til fæðingarorlofssjóðs, þegar núverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins birtist og barðist gegn því af mikilli hörku og svo fór að hætt var við niðurskurðinn.
Sumir segja að víst þurfi að skera niður, en það megi ekki gera í heilbrigðismálum og ekki í menntamálum. Svo virðist sem sumir haldi að á þessum sviðum sé ekki gerður nokkur einasti hlutur sem ekki sé bráðnauðsynlegur.
En hvað ætli fólk viti um það sem fram fer á almannakostnað í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu?
Eitt af því merkasta og mikilvægasta sem rekið er undir merkjum Háskóla Íslands er vísindastofnun sem nefnist „Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum“. Háskóli Íslands greiðir helming rekstrarkostnaðar en Reykjavíkurborg helming, á grundvelli „samstarfssamnings“ sem gerður hefur verið, fyrst við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur en síðar við Dag B. Eggertsson. Núverandi samningur rennur að óbreyttu út á næsta ári en háskólinn og borgin gætu að sjálfsögðu samið um breytingar þar á.
Á vegum rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum fer fram mikil vísindastarfsemi, eins og nærri má geta. Þannig fór í síðustu viku fram málþingið „Kyn og loftslagsbreytingar“ og í kynningu á því var sérstaklega tekið fram að á hinni árangursríku loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn hefði Ísland sérstaklega verið heiðrað „fyrir að halda kynjasjónarhorni á lofti í þeim samningaviðræðum sem þar áttu sér stað.“ Á auglýstri dagskrá ráðstefnunnar voru til dæmis erindi Kristínar Ástgeirsdóttur, „Kynjavíddir í alþjóðlegri umræðu um loftlagsbreytingar“, Sólveigar Önnu Bóasdóttur, „Loftslagsbreytingar í guðfræðilegri siðfræði: Femínísk orðræða um lífvænan náttúruskilning“, og Magnfríðar Júlíusdóttur, „Loftslagsbreytingar og kynjuð þróunarorðræða um Afríku: Gamalt stef í nýjum umbúðum?“.
Þá skortir ekki á fræðiritaútgáfuna á þessu mikilvæga vísindasviði. Þannig kom nýlega út áríðandi „skýrsla um ákvarðanatöku kvenna í fiskeldi á Íslandi“ og í kynningu á henni segir að hún „tengist alþjóðlegu norðurslóðaverkefni um konur og ákvarðanatöku í sjávarútvegi. Á Íslandi var sjónum beint að konum og fiskeldi en gögn um mannauð greinarinnar lágu ekki fyrir, hvorki í kynjavídd né í faglegu uppgjöri og varpa niðurstöður greiningarinnar nýju ljósi á þátttöku kvenna í atvinnugreininni.“
Það er vissulega afar alvarlegt að gögn um mannauð greinarinnar hafi ekki legið fyrir, og með ólíkindum að gögnin sem ekki lágu fyrir hafi ekki heldur verið í kynjavídd og ekki heldur í faglegu uppgjöri. Er því mjög mikilvægt að skýrslan sé komin út og er hún öflugur grunnur frekari rannsókna á ákvarðanatöku kvenna í fiskeldi. Með frekari rannsóknum má svo afla mikilvægra gagna, helst í kynjavídd, og halda vísindastarfinu áfram með þátttöku þverfaglegra sérfræðinga.
Með hinu öfluga starfi rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum tekst að útskrifa fjölda kynjafræðinga á hverju ári, sem nú eru nær sjálfkjörnir fulltrúar í mikilvægar nefndir stjórnvalda og sitja þar með ekki síðri stétt vísindamanna, „stjórnsýslufræðingunum“. Þessir tveir vísindahópar eru líklegir til að taka við hlutverki leiðtogafræðinganna í brjóstvörn íslensks atvinnulífs og þjóðmála á næstu árum.
En það er auðvitað hvergi hægt að skera niður umfram það sem gert hefur verið. Menn eru komnir alveg að ystu mörkum.