Þriðjudagur 9. febrúar 2010

40. tbl. 14. árg.

Þ ar kom að því. Loksins hafa stjórnvöld vaknað og er ofboðið vegna kostnaðarins vegna Icesave-málsins. Ríkisútvarpið er líka vaknað og er komið með áhuga á fjárhæðunum sem í húfi eru. Nú ætla stjórnvöld að þráast við að greiða og reyna allt sem þau geta til að vefengja og fá greiðslufjárhæðina lækkaða.

Önnur frétt Ríkisútvarpsins í gærkvöldi, og hefði verið fyrsta frétt ef heilt sveitarfélag hefði ekki verið svipt fjárræði, var að kostnaður vegna lögfræðiálits, sem bölvuð stjórnarandstaðan hafði óskað eftir til stuðnings málstað Íslendinga, hefði numið 25 milljónum króna. Alþingi neitar að greiða, hefur heimtað skýringar, rökstuðning og afslátt. Ríkisútvarpið telur stórmál á ferð. Tuttugu og fimm milljónir króna gætu lent á íslenska ríkinu, góðir hlustendur. Og já, það var stjórnarandstaðan sem bað um þessa lögmannsstofu, eins og rækilega var tekið fram í Ríkisútvarpinu.

Nú er nóg komið. Nú snúast stjórnvöld og fréttamenn til varnar íslenskum hagsmunum. Hingað en ekki lengra.

N áist árangur er jafnvel Framsókn fórnandi, sagði Steingrímur Hermannsson í tímaritsviðtali á síðari hluta fyrri forsætisráðherratíðar sinnar. Þó sjálfsagt sé að taka slíkum yfirlýsingum stjórnmálamanna með varkárni, þá verður víst ekki annað sagt en að núverandi stjórnarflokkar mættu leggja minna upp úr stundarhagsmunum flokka sinna en meira upp úr stærri hagsmunum. Ef stjórnarþingmönnum er hótað stjórnarslitum virðast þannig lítil sem engin takmörk vera á því hvað þeir samþykkja og virðist þá eigin sannfæring um málefnið engu skipta, við hliðina á stjórnarslitahótuninni. Náist framlenging við kjötkatlana virðist þeim þykja öllum öðrum árangri fórnandi.

Steingrímur Hermannsson myndaði á sinni tíð þrjár ríkisstjórnir. Margt mætti um þær segja en flest af því verður látið ósagt í dag. Þriggja mála má þó geta sem samþykkt voru á valdatíma þeirra. Í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru samþykkt lög sem afnámu einkarétt ríkisins á útvarpi og sjónvarpi, eftir harðar deilur. Fram að því var öðrum en ríkinu bannað að útvarpa og sjónvarpa og voru menn sem það bann brutu ákærðir og dæmdir fyrir, jafnvel við þær einstöku aðstæður að útsendingar Ríkisútvarpsins lágu niðri vegna verkfalla starfsmanna og dagblöð komu ekki heldur út vegna verkfalla prentara. Sjálfstæðisflokkurinn barðist einarðlega fyrir þessari lagabreytingu en enginn þingmaður Alþýðuflokks og Alþýðubandalags studdi málið, en meðal þingmanna vinstriflokkanna á þessum tíma voru til dæmis þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, sem enn sitja á þingi aldarfjórðungi síðar, jafn fersk og frjálslynd og þá.

Aflamarkskerfið í sjávarútvegi var tekið upp í tíð fyrstu ríkisstjórnar Steingríms en ekki var síðra framfaraskref stigið í vinstristjórn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks, undir forsæti Steingríms, þegar ákveðið var að leyfa frjálst framsal aflaheimilda, sem er nauðsynlegt til að tryggja hagkvæmni kerfisins, sem hefur gerbylt íslenskum sjávarútvegi og margfaldað ávinning landsmanna af honum. Stuðningsmenn þessara flokka mega vera stoltir af því að þeirra menn komu þessu mikilvæga máli í gegn, sem er tvímælalaust helsta skrautfjöður þessarar ríkisstjórnar, og sú skrautfjöður sem sú ríkisstjórn getur eignað sér með réttu.

Óþarft er að taka fram að Vefþjóðviljinn og Steingrímur Hermannsson hefðu ekki náð fullri samstöðu sín á milli um öll helstu álitamál, og hefði farið fjarri. Hitt þarf ekki að efast um, að Steingrími þótti raunverulega vænt um Ísland og vildi af einlægni vinna því gagn. Allt til loka var hann þannig eindreginn andstæðingur þess að Ísland afsalaði sér fullveldi sínu með inngöngu í Evrópusambandið og fjarri hefði verið honum að taka vitandi vits afstöðu gegn eigin landi í samningaviðræðum við aðrar þjóðir, og það um svo stóra hagsmuni að ráðið gætu úrslitum um hag landsins næstu áratugina. Stjórnmálamanni, sem hefur þetta tvennt hugfast, er ekki alls varnað.